144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

lagasetning á kjaradeilur.

[14:10]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég held að hæstv. ríkisstjórn átti sig ekki á því hve alvarlegt ástandið í heilbrigðiskerfinu er. Ræða hæstv. utanríkisráðherra hér áðan staðfestir þá trú mína. Lengi hefur verið bent á það að heilbrigðisstarfsmenn og hjúkrunarfræðingar meðal annars flýi land vegna aðbúnaðar á heilbrigðisstofnunum og vegna launastefnu stjórnvalda. Lagasetningin á verkföll núna munu aðeins herða deiluna, auka á vandann sem er nú þannig að á mörgum deildum hefur verkfallið ekki áhrif vegna þess að þar er öryggismönnun. Þar er aðeins sú mönnum sem tryggir öryggi sjúklinga. Ástandið er þannig núna þegar verið er að setja lög á verkföll. Ég talaði við hjúkrunarfræðing áðan og hún sagði: Guð minn góður, lagasetning í dag er byrjunin á einhverju hræðilegu í íslensku heilbrigðiskerfi.