144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[20:41]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég get farið yfir nokkur atriði hérna. Það segir í stjórnmálaályktun Sjálfstæðisflokksins á landsfundi fyrir kosningar, nr. 41, að Sjálfstæðisflokkurinn ætli að tryggja öryggi og velferð landsmanna með því að leggja skattfé fyrst í þau verkefni sem eru brýn og áríðandi. Punktur. Svo er upptalning á nokkrum og það fyrsta er: Örugg heilbrigðisþjónusta. Í ályktun velferðarnefndar Sjálfstæðisflokksins fyrir landsfundinn, sem var lögð fyrir fundinn kemur fram að leggja verði ríka áherslu á breytta forgangsröðun varðandi fjárveitingar, og svo segir aðeins neðar: „með bættu starfsumhverfi og kjörum heilbrigðisstétta“.

Er það verkefni brýnt og áríðandi að forgangsraða skattfé þannig að við missum ekki heilbrigðisstarfsmenn úr landi eins og getur gerst ef við setjum lög á verkföll heilbrigðisstarfsmanna núna, og hæstv. heilbrigðisráðherra, sjálfstæðismaður, er sammála um að það skapi hættu í heilbrigðiskerfinu? Er þá brýnt og áríðandi verkefni að forgangsraða skattfé þangað eins og er kveðið á um í landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins? Ég mundi segja já, að sjálfsögðu er það það. Getum við gert þetta, höfum við peninga til þess? Já, við höfum þá, það er alveg ljóst. Við vitum að þetta kostar kannski um 3–4 milljarða, við höfum efni á því. Við erum að skapa svigrúm með losun haftanna með því að greiðslubyrði ríkissjóðs mun minnka um rúma 7 milljarða eins og kemur fram í frumvörpunum um það, við höfum efni á þessu. Við höfum efni á þessu.

Það sem við höfum kannski ekki efni á er það að taka áhættuna með fyrsta flokks heilbrigðiskerfi. Það er búið að gera það á þessu kjörtímabili aftur og aftur og aftur þrátt fyrir öll loforð, þrátt fyrir allar ályktanir landsfunda flokkanna, loforðin fyrir kosningar og það sem hv. þingmaður benti á varðandi yfirlýsingu heilbrigðisráðherra í kjölfar læknadeilunnar um aukna peninga í heilbrigðiskerfið.

Þetta er staðan. Það er ekki verið að setja fyrsta flokks heilbrigðiskerfi í forgang. Hvað sýnist þingmanninum aftur á móti þessi stjórnvöld setja í forgang?