144. löggjafarþing — 139. fundur,  30. júní 2015.

náttúruvernd.

751. mál
[11:36]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir ágæta ræðu þar sem hún fór í stuttu máli efnislega yfir nokkra þætti sem við erum algerlega sammála um að þarf að fara yfir og endurskoða.

Ég vil líka þakka henni fyrir hennar hlut í þeirri sátt sem náðist í nefndinni á síðasta tíma. Ég held að sú sátt sé mjög mikilvæg öllum sem unna náttúrunni og vilja stuðla að góðum náttúruverndarlögum. Ég vil þó spyrja hv. þingmann að einu. Þegar við urðum sammála um að fresta málinu, að ráðuneytið fengi svigrúm til að vinna faglega, sem ég tel reyndar að hafi verið gert og að þar hafi verið virkilega vel að verki staðið, lá fyrir að ráðherra teldi að það væri hugsanlega of naumur tími fyrir ráðuneytið til að halda samstarfinu áfram. Það varð reyndar úr að 1. júlí varð niðurstaðan en nefndarmenn máttu gera sér grein fyrir því að sú tímasetning var hæpin.

Hv. þingmaður nefnir hér að mjög mikilvægt sé að klára lögin sem fyrst. Ég er henni sammála en vil þó spyrja hana hvort mikilvægast af öllu sé ekki að lögin verði eins vönduð og hægt sé, að nefndin fái nægilegt svigrúm til að ræða saman, til að kalla til alla þá aðila. Er það ekki mikilvægast í því góða ferli sem átt hefur sér stað? Ég er alveg sammála því að við eigum að flýta okkur en hef þó bent á að efnislegi hlutinn hljóti að vera mikilvægari. Ég vil bara spyrja: Er hv. þingmaður sammála mér um að efnislegi hluti málsins skipti öllu máli?