145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:33]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég verð að vísu að viðurkenna að ég skildi ekki alveg inntakið að öllu leyti. Hv. þingmaður talaði um að það vantaði peninga í heilbrigðismálin eins og það væri bara eitthvað sjálfgefið að bæta fjármunum þar inn. Eins og allar þjóðir sem við berum okkur saman við erum við að reyna að kaupa eins mikið af nýjum lyfjum og mögulegt er, en allar þær þjóðir sem við berum okkur saman við eru nú með takmarkanir á því af augljósum ástæðum sem ég hef nú ekki tíma til að fara yfir núna. Hann talaði um vegakerfið, að setja meiri peninga þangað, fjarskiptin, meiri peninga í þau, ferðaþjónustuna, meiri peninga í hana, menntamálin, meiri peninga í þau. Hv. þingmaður ætti að vita það eftir að hafa verið í þinginu að það er ekki sjálfgefið að forgangsraða til dæmis í þágu heilbrigðismála. Það hefur verið gert á þessu kjörtímabili, ólíkt því sem gert var á síðasta kjörtímabili, eins og allar tölur sýna. Menn geta bara farið í ríkisreikning til að skoða það. Mér finnst billegt að tala eins og það sé bara sjálfgefið að þetta sé gert. Það er mjög erfitt að standa í því og vonandi höldum við því áfram.

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður vill ekki þá húsnæðisaðstoð sem við erum með til að hjálpa fólki að greiða niður skuldir, hann segist vera á móti því. Hvað finnst þá hv. þingmanni um það að við séum með aðstoð, sem við höfum verið með lengi, sem gengur út á það að greiða niður vexti hjá fólki? Það er bara skuldhvetjandi aðgerð, það er í rauninni aðstoð við fjármálastofnanir frekar en eitthvað annað. Það væri ágætt að fá sjónarmið hv. þingmanns á því.

Sömuleiðis talaði hv. þingmaður í stefnuræðunni um það að stjórnmálaflokkurinn sem hann er í vildi hætta með jarðefnaeldsneyti. Mér fannst mjög áhugavert að Ísland ætti að vera fyrsta landið sem mundi ekki nota slíkt. Það væri kannski ágætt að heyra hvernig við ætlum að framkvæma það, virðulegi forseti.