145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:09]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir fyrirspurnina. Ég kom í gærkvöldi úr heimsókn frá Danmörku, þar sem ég átti góðan fund með danska húsnæðismálaráðuneytinu þar sem mér var meðal annars kynntur þessi bæklingur um góðar og ódýrar íbúðir fyrir ungt fólk. Danir hafa verið að vinna að því að þróa íbúðir þar sem helst ætti ekki að borga meira en 3.200 dkr. á mánuði, sem er á milli 60 til 70 þús. kr. á mánuði fyrir einstaklingsíbúð og það er áður en kemur til húsnæðisstuðningsins.

Það sem er svo áhugavert í þeim tillögum er að mjög mikið er talað um aðgengismálin og hvernig hægt sé að tryggja að þau séu í sem bestu formi, og líka jafnvel um það hvernig hugsanlega sé hægt að nýta þessar tegundir af íbúðum líka í húsnæði fyrir fatlað fólk eða jafnvel eldra fólk sem býr eitt, eða aðra sem búa við þess háttar aðstæður.

Hér sjáum við að hægt er ná árangri í því að lækka húsnæðisverðið verulega en tryggja á sama tíma að allir sem á því þurfa að halda geti búið í viðkomandi húsnæði.

Það er hins vegar alveg ljóst, eins og hv. þingmaður sagði, að gefin eru ákveðin loforð um nýjan flokk mannvirkja í yfirlýsingu stjórnvalda vegna húsnæðismálanna og það er einfaldlega þannig að ríkisstjórnin er búin að skuldbinda sig til að vinna í samræmi við þessa yfirlýsingu. Umhverfis- og auðlindaráðherra er búinn að skipa starfshóp til að fara yfir byggingarreglugerðina og skipulagslögin og annað sem að því snýr varðandi kostnaðinn.

Hvað varðar húsaleigubæturnar eða húsnæðisbæturnar ítreka ég það sem ég hef sagt: Að sjálfsögðu fer mestur stuðningur til þeirra sem eru tekjulægstir og efnaminni, samkvæmt frumvarpinu, það er algjörlega skýrt. Hins vegar er verið að opna fyrir fólk sem er með hærri tekjur; hluti af þessu er fólk sem komið er á vinnumarkaðinn, er með lágar tekjur, hefði átti rétt á vaxtabótum ef það hefði keypt sér húsnæði en á ekki í dag rétt á (Forseti hringir.) að fá húsaleigubætur af því að það er í leiguhúsnæði. Á því erum við að taka og það er meðal annars ástæðan fyrir því að ASÍ veitti mjög jákvæða umsögn (Forseti hringir.) um frumvarpið nú í meðförum þingsins.