145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

lýðháskólar.

17. mál
[18:35]
Horfa

Flm. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu fyrir hönd þingflokks Bjartrar framtíðar sem hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að hefja vinnu við gerð frumvarps til almennrar löggjafar um lýðháskóla á Íslandi. Markmið löggjafarinnar verði að gera lýðháskóla að viðurkenndum valkosti í menntun sem njóti lagalegrar umgjarðar og stuðnings hins opinbera. Við vinnuna verði horft til þess fyrirkomulags sem gildir um starfsemi lýðháskóla annars staðar á Norðurlöndum. Ráðherra leggi fram frumvarp eigi síðar en á vorþingi 2016.“

Þetta er í annað sinn sem við leggjum fram þessa þingsályktunartillögu. Hún var lögð fram seint á síðasta þingi og komin er ein umsögn sem var jákvæð. Ástæðan fyrir að við gerum þetta er að okkur finnst mikilvægt að gera rekstrarumhverfi lýðháskóla sambærilegt því sem þekkist annars staðar á Norðurlöndunum og vegna þess líka að lýðháskólar eru öðruvísi valkostur og eiga að vera hluti af menntaflórunni á Íslandi, finnst okkur.

Margir Íslendingar þekkja lýðháskóla frá Norðurlöndunum, kannski sérstaklega Danmörku, þar sem þeir eru viðurkenndur valkostur. Íslendingar hafa sótt þangað og nú höfum við lýðháskóla á Seyðisfirði, LungA, þar sem hefur farið fram mjög mikið og gott starf en um starfsemi skólans ríkir alltaf einhver óvissa vegna þess að fjárframlög geta verið tilviljanakennd og enginn lagarammi eða reglur eru utan um starfsemina. Þó að skólinn hafi vissulega notið velvildar er mjög mikilvægt að geta skipulagt fram í tímann og eytt orkunni í að byggja upp skólann í stað þess að vera í stanslausum samskiptum við löggjafarvaldið og ráðuneytið til að reyna að ná utan um reksturinn og fá styrki.

Við vitnum í skýrslu mennta- og menningarmálaráðuneytisins sem heitir Allir stundi nám og vinnu við sitt hæfi sem var birt 2012 þar sem segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Auka þarf fjölbreytni kennsluaðferða og nútímavæða framsetningu námsefnis í grunn- og framhaldsskóla til að mæta ólíkum þörfum og væntingum nemenda og glæða og viðhalda áhuga þeirra. Mikilvægt er að örva nemendur í verkefnabundnu og lausnamiðuðu námi og ýta undir frumkvæði, gagnrýna hugsun og skapandi starf nemenda. Nýta þarf nýja miðla sem nemendur nota utan skóla til að glæða áhuga þeirra á náminu og auka fjölþætt verkefnaskil t.d. á formi margmiðlunar.“

Hér er raunverulega verið að lýsa áherslum í starfi lýðháskóla þannig að við teljum að mikilvægi lýðháskóla í menntaflórunni sé óumdeilt.

Síðan er vísað í að Alþingi hafi 21. maí 2007 samþykkt ályktun sem var flutt af fulltrúum í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins þar sem skorað er á ríkisstjórnir Íslands, Færeyja og Grænlands að beita sér fyrir því að stofnaðir yrðu norrænir lýðháskólar í þessum löndum.

Með tillögu þessari leggjum við til að hafinn verði undirbúningur að gerð almennrar löggjafar um starfsemi lýðháskóla og skilgreint hvaða skilyrði og kröfur þeir þurfi að uppfylla til að fá starfsleyfi og einnig skilgreina hvernig eftirliti er háttað, hvernig mögulegar kæruleiðir væru og þar fram eftir götunum.

Við bendum á að í því sambandi sé gáfulegt að líta til annarra Norðurlanda um fyrirmynd að löggjöf um lýðháskóla þar sem þeir hafa verið starfandi um áratugaskeið, árhundruð jafnvel.

Við teljum að styrkur þeirra sé fjölbreytni. Áhersla getur ýmist verið lögð á listir, íþróttir eða hvað það nú er, og þetta yrði bara hrein viðbót við íslenska menntaflóru, skólaflóru. Við vonumst eftir að tillagan verði samþykkt en ekkert er því til fyrirstöðu að hæstv. menntamálaráðherra byrji nú þegar að undirbúa slíka löggjöf. Það er einn lýðháskóli starfandi og það ætti auðvitað nú þegar að vera einhver vinna í ráðuneytinu við að tryggja lagalega umgjörð utan um þann skóla þannig að fleiri skólar opni vonandi í framtíðinni.