145. löggjafarþing — 19. fundur,  13. okt. 2015.

sálfræðiþjónusta í framhaldsskólum.

[13:59]
Horfa

Ingibjörg Þórðardóttir (Vg):

Herra forseti. Undanfarna daga hefur enn ein byltingin átt sér stað á samfélagsmiðlum, nú undir myllumerkinu #égerekkitabú. Þessi bylting ræðst gegn þöggun sem ríkt hefur um geðræn vandamál og þá einkum þunglyndi og kvíða. Flest þau sem tekið hafa þátt í þessari byltingu eru ungt fólk og þetta fólk kallar á að viðhorf samfélagsins breytist og að andleg veikindi séu tekin alvarlega og viðurkennd sem alvöruveikindi.

Fæstir framhaldsskólar á landinu eru með sálfræðing í starfi en þó vitum við að mjög stór hópur nemenda glímir við vandamál eins og kvíða, þunglyndi, fíkn, erfiðar heimilisaðstæður og félagsfælni, svo að eitthvað sé nefnt. Þessir nemendur leita því til námsráðgjafa og kennara með vandamál sín. Þetta er gríðarlegt aukaálag á starfsmenn sem í raun hafa hvorki tíma né þá faglegu þekkingu sem þarf til að aðstoða nemendur.

Mikilvægt er að fá sálfræðinga inn í skólana. Í Verkmenntaskólanum á Akureyri hefur verið starfandi sálfræðingur sem nemendur geta leitað til sér að kostnaðarlausu. Það kom strax í ljós að það var gríðarleg þörf fyrir þessa þjónustu. Almenn sálfræðiþjónusta er mjög dýr og því ljóst að margir sem á henni þurfa að halda hafa ekki ráð á henni. Þetta er sérstaklega erfitt á mörgum stöðum úti á landi þar sem úrræðin eru fá. Mikilvægast er að sálfræðiþjónustan sé inni í skólanum en ekki á heilsugæslunni. Það eykur verulega líkurnar á að nemendur nýti sér þjónustuna.

Það er mikil þekking í samfélaginu og við vitum að geðræn vandamál eru ein af helstu ástæðum brottfalls úr framhaldsskóla. Ætlar hæstv. ráðherra að tryggja að boðið verði upp á fyrirbyggjandi aðferðir eins og HAM, hugræna atferlismeðferð, og ART, hópúrræði sem byggir á félagsfærni, þjálfun, reiðistjórnun og eflingu siðgæðisþroska í framhaldsskólum landsins? Ætlar hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því að sálfræðingar verði ráðnir til starfa í framhaldsskólunum? Ef svo er, mun hann geta tryggt nægilegt fjármagn til þess í fjárlagafrumvarpi?