145. löggjafarþing — 19. fundur,  13. okt. 2015.

sálfræðiþjónusta í framhaldsskólum.

[14:03]
Horfa

Ingibjörg Þórðardóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ástandið í framhaldsskólunum er þannig, ég er sjálf framhaldsskólakennari, að álagið á almennt starfsfólk, sem þarf að takast á við geðræn vandamál hjá nemendum, er gríðarlegt.

Allir kennarar þekkja það að í lok kennslustundar bíða nemendur og vilja tala við kennarann sinn og ræða þessi mál. Þetta er ekki eitthvað sem kennarar geta tekið á sig. Þetta er heldur ekki eitthvað sem náms- og starfsráðgjafar geta tekið á sig. Það kemur eiginlega ekkert annað til greina en sálfræðingar. Við verðum að setja þá inn í skólana, því að þessir krakkar fara ekkert svo auðveldlega út úr skólunum til að sækja þessa þjónustu. Þannig að þetta kallar bara á aukafjármagn.

Mér fannst það kannski ekki koma alveg nógu skýrt fram: Verður sett aukafjármagn, eyrnamerkt þessu, sálfræðingum í framhaldsskólanum?