145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

um fundarstjórn.

[12:40]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hv. þm. Vilhjálmur Árnason kom upp áðan og sagði að það hefði kannski ekki mikið breyst í þessu máli, þetta væri sama málið og hefði verið rætt hér á síðasta þingi. Það sem hefur breyst er að hæstv. fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, hefur lagt málinu mikla vigt í stefnuræðu sinni. Það hefur vakið undrun líka að fyrst þetta er svona mikið forgangsmál af hverju það er ekki flutt af ríkisstjórninni, af hverju þetta er þingmannamál. Svo skarast þetta á við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um áherslur í áfengis- og vímuvarnamálum. Mér finnst ofur eðlilegt að fá hæstv. heilbrigðisráðherra hingað til að fá fram skoðanir hans í þessu máli og hvort það plagg, sem vísað var til áðan, sem hann lagði fram um áherslur í vímuvarnastefnu (Forseti hringir.) standist eða ekki eða hvort búið sé að draga það til baka.