145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[15:18]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég gerði það einmitt að umtalsefni hér, þ.e. annars vegar þetta með tímalínuna. Við erum ekki komin með neina áætlun um afnám hafta á almenning. Við erum ekki komin með áætlun um það hvernig lífeyrissjóðir eiga að fara með sínar eignir og þar er mikil uppsöfnuð fjárfestingarþörf. Við erum í raun ekki búin að sjá neitt á spilin hvað þetta varðar.

Síðan hvað varðar hitt sem hv. þingmaður nefndi, að fresta vandanum til framtíðar, þá eru auðvitað mjög stórar spurningar á leiðinni. Hvernig á til dæmis að fara með banka sem fyrirhugað er að verði hluti af þessu framlagi? Við heyrum strax ólíkar raddir um hvað sé rétt að gera í því. Ýmsir hvetja til dæmis til þess að Íslandsbanki verði seldur hið fyrsta en þá veltum við því auðvitað fyrir okkur hverjir bíði eftir að kaupa hann og hvernig eigi að standa að þeirri bankasölu. Enn hefur ekki farið fram rannsókn, sem var þó samþykkt í þingsályktun, um hvernig staðið var að einkavæðingu bankanna (Forseti hringir.) upp úr aldamótum. Það bíða líka stórar spurningar um framtíðina.