145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[18:18]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Tobin-skattur er áhugaverð pæling í sjálfu sér. En mig langar að bera undir hv. þingmann aðra hugmynd, mér er ekki ljóst hversu sturluð hún er, því að fyrr í dag var þeirrar spurningar spurt: Hvað ef við værum einfaldlega með miklu lægri stýrivexti? Hvað ef Seðlabankinn tæki það upp á sitt eindæmi að lækka vexti gríðarlega? Ég spyr hv. þingmann hver hann telur að áhrifin af því yrðu, vegna þess að ég fæ ekki séð hvernig á að berjast við verðbólgu og þenslu með háum vöxtum þegar þeir sömu háu vextir virðast valda þenslu og í kjölfarið verðbólgu að einhverju leyti. Ég velti því fyrir mér hvers vegna við lækkum ekki, hvers vegna það sé ekki best, þrátt fyrir að það sé kannski ekki alveg í samræmi við helstu hagfræðikenningar, sem virðast hvort sem er ekki standast mjög vel í þessu litla hagkerfi. Hvernig mundi hv. þingmaður taka í slíkar hugmyndir, að lækka vextina gríðarlega, og hver telur hann að áhrifin af því yrðu?