145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:35]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins út í þá liði sem við erum væntanlega sammála um að eru ekki ófyrirséðir og ættu ekki að vera í þessu frumvarpi ef hlutirnir væru eins og við viljum hafa þá; með meiri ábyrgð og áætlunargerð fram í tímann og þar fram eftir götunum. En þegar kemur að því að greiða atkvæði eru þingmenn samt alltaf sammála sínum ráðherrum, nema kannski í einu tilfelli sem ég man eftir. Er hv. þingmaður sammála mér um að rétt sé að þingið setji niður fótinn hér, t.d. varðandi Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, æpandi dæmi sem átti að sjá fyrir? Það líður ekki nema hálft ár frá því að fjárlög voru samþykkt og þangað til búið er að ákveða þessa aukafjárveitingu. Er hv. þingmaður sammála mér um að þetta sé liður sem við í þingsal eigum að sjálfsögðu ekki (Forseti hringir.) sætta okkur við að komi inn á fjáraukalög og hann greiði þá atkvæði gegn þessum lið?