145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

geislavirk efni við Reykjanesvirkjun.

145. mál
[17:55]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Eins og ég nefndi hér áðan þá hafa færustu vísindamenn á sviði geislavarna metið það svo að fólki og dýrum sé engin hætta búin af þeirri uppsöfnun geislavirkra efna sem mælst hefur í borholum HS Orku á Reykjanesi. Ég hef enn fremur vakið athygli á því að hjá Geislavörnum ríkisins starfa afar færir sérfræðingar á sviði geislavarna. Eins og ég hef áður sagt og sagði hér áðan hef ég engar, né heldur ráðuneytið, faglega forsendur til að vefengja mat þeirra á stöðu mála. Ég treysti raunar fullkomlega mati sérfræðinga í þessum efnum.

Ég hef hins vegar áður sagt, í umræðum um þetta mál, að í ljósi æ ríkari kröfu um opna stjórnsýslu hefði mátt líta á það sem æskilegt að veita upplýsingar um mál sem er nokkuð einstakt eins og þetta, líkt og hér hefur verið til umræðu. Ég hef ekki fallið frá þeirri skoðun minni. Þó má líka segja að hægt sé að ganga of langt í því að gefa út opinberar tilkynningar um mál sem eru afar tæknileg eða fræðileg og hafa jafnvel ekki upplýsingagildi fyrir almenning. Slíkt getur orðið til þess að draga úr gildi þess að gefa út opinberar tilkynningar þegar raunveruleg þörf er á því að ná til almennings með upplýsingar sem eru mikilvægar og varða raunverulega almenna hagsmuni.

Ég þakka þingmanninum fyrir spurningarnar og fagna því að hafa fengið tækifæri til að skýra þetta mál út fyrir þingheimi.