145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég tek heils hugar undir með þeim ræðumanni sem var hér á undan mér. Ég tel mjög brýnt að við látum ekki þessar hátíðir einkennast af ótta, kvíða og þjáningu. Það þarf ekki að vera þannig.

Mig langaði aðeins að fara í smásjálfhverfu og skoða ástandið á þingmálunum. Mig langaði að fá úr því skorið hvort frumvarpið, sem hér liggur frammi og er enn opið og í umræðu og hefur ekki komið á dagskrá, frumvarp um verslun með áfengi og tóbak, hindraði að önnur þingmannamál væru sett á dagskrá. Ef svo er þá vil ég að þetta mál, verslun með áfengi og tóbak, verði bara klárað og því komið í nefnd svo að hægt verði að taka á mjög mikilvægum málum sem er einhugur um og klára þau hér á þingi eins og sanngirnisbætur vegna Landakotsskóla, það er mál sem er einhugur um í þinginu að klára, samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem hæstv. innanríkisráðherra er með, og síðan fullgilding bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum.

Ég vil vekja athygli á því að það hafa eingöngu þrjú mál verið samþykkt á þessu þingi. 58 mál bíða 1. umr. Það eru 24 mál í nefnd. Fimm mál bíða eftir 2. umr. og þrjú mál bíða eftir 3. umr. Afskaplega erum við verklítil. Við gætum gert svo miklu meira ef það væru ekki notuð alls konar brögð til að hindra að mjög góð og mikilvæg þingmannamál fengju hér fulla afgreiðslu. Ég skora á þingmenn að þrýsta á forseta að við breytum þessari ömurlegu hefð.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna