145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[13:55]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og margvíslegan málflutning hans hér á undanförnum vikum til að tala fyrir kjörum aldraðra og öryrkja. Það er auðvitað ekki vanþörf á þegar sú staða er skoðuð að allt of margir búa við sára fátækt. En það þarf náttúrlega að fjármagna slíkt og maður vill trúa því í lengstu lög að það sé það sem tefji meiri hluta fjárlaganefndar við að koma inn með fjármuni til verkefnisins. Þá nefnir þingmaðurinn það sem annar þingmaður Bjartrar framtíðar tók hér upp í morgun sem eru tekjur af sameiginlegum auðlindum landsins og talar um að eðlilegt sé að það skili eðlilegri rentu, eins og ég held að ég muni rétt að þingmaðurinn hafi nefnt, í ríkissjóð og væri þá hægt að nýta auknar tekjur af auðlindum í þágu þessa málefnis meðal annars, að láta aldraða og öryrkja njóta sömu kjarabóta og okkur hin sem störfum í þessu húsi og mörgum öðrum.

Hvernig sér þingmaðurinn fyrir sér að megi meta þetta umdeilda, sem er eðlileg renta af auðlindum? Hvernig sæi hann fyrir sér að við gætum hagað auðlindagjöldum til að mynda þannig að þau skiluðu meiru í ríkissjóð þannig að hægt væri með myndarlegri hætti að bæta kjör aldraðra og öryrkja?