145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[18:50]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til fjáraukalaga og það er eitt af stóru frumvörpunum á hverju ári, fastagestur hér á þinginu, enda má segja að það sé eitt af lykilhlutverkum þingsins að halda utan um fjárlög, halda utan um þá peninga sem eru bensínið á mótor hins opinbera. Þessir aðskildu þættir fjárlaga og utanumhalds um áætlanir og niðurstöður fjárlaga eru grunnurinn að allri þeirri þjónustu og þeirri starfsemi sem ríkið stendur fyrir.

Mig langar að byrja á því að taka undir með öðrum hv. þingmönnum sem hafa talað hér í dag, fjáraukalögin eru í raun niðurstaða. Þau eru leiðrétting á því sem gerst hefur á árinu, leiðrétting á því sem hefur breyst óvænt, það er hugsunin, frá því að fjárlög voru samþykkt í lok síðasta árs. Í þessu frumvarpi til fjáraukalaga, fyrir árið 2015, sjáum við talsvert miklar breytingar, miklar sveiflur. Stóru fréttirnar eru kannski aðallega þær að í þessu fjáraukalagafrumvarpi kemur fram að tekjurnar á árinu 2015 eru talsvert miklum mun hærri en gert var ráð fyrir í fjárlögunum sem voru samþykkt fyrir tæpu ári.

Það eru frábærar fréttir og ég held að það sé mikilvægt að skoða aðeins hvaðan þessar óvæntu tekjur eða hærri tekjur koma. Auðvitað koma þær að einhverju leyti úr óvissuþáttum. Þær koma úr óvissuþáttum á borð við það að það er miklu hærri arður af bönkum í eigu ríkisins en gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Umsvif hafa aukist í samfélaginu þannig að ýmsar skatttekjur hafa sömuleiðis hækkað miðað við fjárlögin.

Það er skylda okkar hér á Alþingi, sem höfum fjárveitingavaldið, en líka eftirlitshlutverk með framkvæmdarvaldinu, með ríkisstjórninni og ráðuneytum hennar, að velta því fyrir okkur hvort þessar stóru sveiflur, sem við sjáum í fjáraukanum núna, séu fyrirsjáanlegar eða ófyrirsjáanlegar. Fjáraukinn á ekki að vera tæki; ef við erum með lið eða vasa, sem heitir óútreiknanlegt eða illútreiknanlegt, þá á hann ekki að vera of rúmur.

Maður hefur því miður haft þá tilfinningu síðustu áratugina að það að geta notað fjáraukann til að hreyfa til, lagfæra, koma með því sem næst aukafjárlög í sumum tilfellum, alla vega í ákveðnum flokkum, ýti undir lausatök og losaragang í vinnubrögðum, sem er ekki gott, og það letur menn til að haga áætlanagerð almennilega þannig að hún standist.

Að því sögðu þá skulum við ekki gleyma því að ríkisreksturinn — þetta eru náttúrlega einhverjar stærstu tölur í íslensku samfélagi — er gríðarstór og mjög flókinn þannig að ekki er óeðlilegt að það séu sveiflur, að það séu ákveðnir þættir sem sé erfitt eða jafnvel ekki hægt að sjá fyrir. Síðan gerast hlutir yfir árið sem geta haft mikil áhrif.

Við í Bjartri framtíð höfum gagnrýnt, í fjáraukanum það sem af er þessu þingi, að það eru ákveðnir liðir sem koma eiginlega alltaf upp. Það kemur alltaf í ljós að það er miklu meiri þörf, sérstaklega þegar kemur að sjúkratryggingum, en gert hafði verið ráð fyrir í áætluninni sem fjárlög eiga að vera. Það er skiljanlega aldrei hægt að sjá það fyrir, það eru ekki þeir Nostradamusar í neinum ráðuneytum sem geta reiknað út hve margir verða veikir eða hvað það mun kosta að veita þeim heilbrigðisþjónustu, en einhvern veginn læðist að manni sá grunur að það sé þægilegt, vegna þeirrar óvissu sem býr í sjúkratryggingum bara eðlisins vegna, að áætla sjúkratryggingar of lágar og redda því síðan eða lagfæra í fjáraukanum. Auðvitað hugsa ég að menn séu alltaf með krosslagða fingur með það að fjáraukinn sé réttu megin við núllið, þ.e. að það séu auknar tekjur á móti. Nú, ef ekki þá er það náttúrlega bara aðeins leiðinlegra en skekkjan er leiðrétt afturvirkt vegna þess að þessir peningar eru farnir úr ríkissjóði.

Mig langar til að taka undir gagnrýni annarra hv. þingmanna hér í dag um ákveðna liði sem eru í fjáraukanum, þar sem maður hefur á tilfinningunni að í raun sé verið að taka pólitíska ákvörðun til viðbótar, þ.e. að vegna þess að fjáraukinn býður upp á að verið sé að leiðrétta og setja inn liði þá sé verið að bæta inn því sem menn höfðu ekki sett inn í fjárlög, því sem vantaði í þær áætlanir, og hjálpaði til þess að fjárlög voru lögð fram og samþykkt þannig að þau væru í plús, þ.e. að ekki væri halli á fjárlögum. En síðan koma allt í einu fram talsvert mikil útgjöld sem eru leiðrétt dálítið í hljóði, skulum við segja, með fjáraukanum.

Það vekur athygli að það eru rétt tæpir 3 milljarðar í fjáraukanum í verkefni Vegagerðarinnar. Það er vitað og þekkt að sum þeirra eru ófyrirséð. Það er mikill aukakostnaður við snjómokstur vegna veðurfars og færðar. En hér hefur maður á tilfinningunni að það hefði verið afskaplega ánægjulegt að sjá betri spádóm frá Nostradamusi eða betri áætlun fyrir fram.

Það er sömuleiðis alveg stórfurðulegt að sjá í þessum fjárauka 850 milljónum úthlutað til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða. Fyrir okkur sem munum vel eftir, og höfðum sérstakan áhuga og gaman af fjárlagaumræðunni í fyrra, og fylgdumst vel með, þá var það eitt af atriðunum sem var mikið gagnrýnt að ekki væri meira ætlað í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða en var í fjárlögunum. Það kemur þá í ljós hér að 850 milljónir, sem eru ætlaðar í fjáraukanum til að setja í þennan framkvæmdasjóð, eru ekkert fjarri þeim upphæðum sem hæstv. ríkisstjórn var bent á að ekki væri vanþörf á að bæta í fjárlögin en var ekki bætt í.

Sömuleiðis verður að segjast að það er dálítið sérstakt að sjá hundruð milljóna í fjáraukanum renna til þjóðkirkjunnar. Nú vil ég ekkert fara ofan í verkefnið heldur bara hreinlega vegna þess að áætlunin, sem fjárlög eru og fjárlög eiga að gilda um og eru samþykkt af Alþingi, gerði ekki ráð fyrir þeim útgjöldum. Þannig að ég vil taka undir með þeim sem hafa gagnrýnt ákveðin lausatök í því hvernig farið er með fjáraukann.

En að því sögðu þá eru góðu fréttirnar í þessum fjárauka að tekjurnar eru jákvæðar. Fjáraukinn sýnir vel rúmlega 20 milljarða, 20 þús. milljónir og vel það, í auknar tekjur ríkissjóðs, umfram það sem gert var ráð fyrir. Það er ástæða til að fagna því en ekki bara að gagnrýna að það hafi ekki verið séð fyrir. Eins og ég minntist á hér fyrr í ræðunni þá er stór hluti af þessu vegna þess að arður af bankastofnunum sem ríkið á, bankastofnunum sem eru í fanginu á ríkinu eftir bankahrunið mikla, er talsvert miklu meiri en gert var ráð fyrir í fjárlögunum.

Það sem við erum að sjá er endi á talsvert langri kúrfu sem sýnir að uppbyggingarstarfið — alveg frá því að bankarnir hrundu með bramli og brestum haustið 2008 og ríkissjóður eins og aðrir sjóðir í landinu lenti í agalega miklum vanda sem varð að bregðast við með mjög róttækum aðgerðum og niðurskurði hægri, vinstri — er að skila sér, sérstaklega tekjumegin.

Það er líka mjög mikilvægt að hugsa til þess að þegar fjárlög voru samþykkt fyrir tæpu ári þá þegar var hæstv. ríkisstjórn að afsala sér tekjum sem voru á bókunum, eins og maður segir, þ.e. voru að nota betra landslag, betra veður í efnahagsmálunum, til að fara í pólitísk áhersluverkefni sín í að lækka og breyta sköttum og gjöldum. Það er ekkert launungarmál að við í minnihlutaflokkunum höfðum fyrirvara á því að það væri dálítið sýnilegt að þar væri frekar verið að hlífa breiðu bökunum en þeim mjóu.

Þessi tilhneiging virðist halda áfram hjá hæstv. ríkisstjórn í framlögðum fjárlögum fyrir 2016. Þar er gert ráð fyrir því að tekjur af veiðigjöldum lækki enn um fleiri milljarða þrátt fyrir mjög góða, og vissulega ánægjulega, niðurstöðu af rekstri sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi. Gert er ráð fyrir að auðlegðarskatturinn, sem vissulega var lagður á tímabundið, en hefur, alla vega að hluta til, verið sátt um, þ.e. að skattleggja sérstaklega þá sem langmestu eignirnar eiga hér á landi og þá sem hafa það best — þó að vissulega megi ræða það hversu langt niður slíkur auðlegðarskattur eigi að ná. Það er sömuleiðis afskaplega varfærin áætlun um arð af bankastofnunum ríkisins í þessum fjárlögum.

Þetta hefur ekki bara áhrif á tekjur ríkissjóðs heldur, vegna þess að fjárlögin eru eðlilega sett þannig fram, eins og í hvaða heimilisbókhaldi, að gerð er tilraun til að láta þau standast og helst vera hallalaus eða réttara sagt í plús. Þannig að tekjuhliðin, það sem kemur inn, það sem gert er ráð fyrir að komi inn í fjárlögum, hefur gríðarlega mikil áhrif á hvað menn ætla að leyfa sér að láta fara út.

Það er eiginlega ekki hægt að ræða þessi mál án þess að gagnrýna að nú, loks þegar árar betur og áralangt uppbyggingarstarf eftir stóra hrunið er farið að skila sér í betri stöðu efnahagslífs Íslendinga, eru pólitískir duttlungar, leyfi ég mér að kalla það, látnir ráða og farið í verkefni eins og að lækka skatta og minnka tekjur frekar en að fara í það brýna og lífsnauðsynlega verkefni að hjálpa aftur á fætur þeim stofnunum og þeim hópum í samfélaginu sem urðu fyrir miklum niðurskurði, oft mjög erfiðum, mjög sársaukafullum, í hruninu þegar við vorum öll hér á landinu einhvern veginn að róa lífróður og ausa til að halda bátnum á floti og allir í samfélaginu lögðust á eitt um að gera það sem þeir gætu, almenn sátt var um að allir tækju þátt í lífróðrinum.

En núna, þegar tækifæri væri til, þá er tilhneigingin því miður sú að stofnanir okkar eru áfram fjársveltar — og nú er ég að horfa á Landspítalann, eins og frægt er orðið, og ætla ekki að fara að kafa ofan í það. En þó svo að bætt sé í heilbrigðiskerfið er það aftur, eins og síðustu tvö árin, ekki í takt við það sem stjórnendur spítalans telja nauðsynlegt til að halda í horfinu heldur er enn verið að svelta lykilstofnanir á borð við Landspítalann.

Ég skaust út úr þinghúsinu í umræðunni til þess að vera viðstaddur mjög ánægjulegar samkomur úti í bæ; annars vegar voru samtökin Þroskahjálp að veita verðlaunin sín Múrbrjótinn og hins vegar var Öryrkjabandalag Íslands að veita hvatningarverðlaun sín; það eru alveg frábærar og einhverjar skemmtilegustu samkomur sem eiga sér á þessu ágæta og skemmtilega landi. En það minnti mann enn og aftur á stöðu öryrkja og ellilífeyrisþega sem eru þeir hópar sem eru hvað helst háðir framlögum ríkisins um tekjur sínar, um lífsviðurværi sitt.

Ég get eiginlega ekki lokið ræðu minni án þess að fara nokkrum orðum um breytingartillögu minni hluta fjárlaganefndar þar sem við stingum upp á, gerum það að tillögu okkar, sérstaklega í ljósi stöðunnar sem kemur fram í fjáraukanum — hér eru tugir milljarða, yfir 20 milljarðar, sem reksturinn skilar umfram áætlanir þrátt fyrir breytingartillögur sem felast í fjáraukanum; og í breytingartillögum meiri hlutans er gert ráð fyrir því að fleiri milljarðar sitji eftir sem vitaskuld munu bæta stöðu ríkissjóðs á endanum. Það er forgangsröðunaratriði hvernig slíkur plús er notaður.

Breytingartillaga minni hlutans gerir ráð fyrir því að bætur til öryrkja og ellilífeyrisþega verði hækkaðar til jafns við hækkun sem orðið hefur á lægstu launum, að sú hækkun verði gerð afturvirk til 1. maí á sama hátt og kjararáð hefur ákveðið að við alþingismenn og helstu embættismenn og forvígismenn samfélagsins hækki afturvirkt til þess að halda okkur í horfinu og í takt við það sem er að gerast úti á stóra markaðnum og í takt við launabreytingar sem orðið hafa í samfélaginu.

En fjáraukinn og tillögur hæstv. ríkisstjórnar gera ekki ráð fyrir því að þessi hópur, ellilífeyrisþegar og öryrkjar, njóti þessarar hækkunar afturvirkt eins og aðrir í samfélaginu, þeir sem hafa, annaðhvort í gegnum samninga eða eins og við hv. alþingismenn í gegnum ákvörðun kjararáðs — við njótum þessarar hækkunar en ekki þeir meðbræður okkar sem erfiðast hafa það, sem eru því miður, það er skömm að segja frá því, helstu lágtekjuhópar samfélagsins.

Mér finnst ég ekkert þurfa að grátbæna eða væla í meiri hluta eða í hv. Alþingi um að þessi tillaga minni hlutans verði samþykkt. Ég tel að þetta sé þvílíkt réttlætismál, ég tel að þessi tillaga sé svo sjálfsögð; ég geri í góðmennsku minni reikning fyrir því að meiri hluta fjárlaganefndar hafi hreinlega yfirsést þessi vandi með tillögum sínum. Ég vil þvert á móti ekki grátbæna heldur hvetja, í gleði og jákvæðni, Alþingi og meiri hluta hv. nefndar, meiri hluta hæstv. ríkisstjórnar, til að samþykkja þessa breytingartillögu.