145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:57]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru að minnsta kosti tvær tillögur sem við samfylkingarfólk höfum komið að og önnur er tillaga með stjórnarandstöðunni um að þeim prósentuhækkunum sem koma um áramótin verði breytt þannig að þær verði frá vori eða miðju ári eins og aðrir eru að fá, m.a. þingmenn. Hins vegar liggur þingsályktunartillaga fyrir þinginu frá þingmönnum Samfylkingarinnar, og ég veit að hún er studd af þingmönnum allrar stjórnarandstöðunnar, um krónutöluhækkanir, þ.e. hækkanir upp í 300 þúsund í sömu skrefum og lágmarkslaun í landinu. Það er alltaf verið að tala um þessar tvær tillögur.

Ég er að vona og mig langar að spyrja hv. þingmann til baka hvort að við ættum að prófa í þinginu, og ég er ekki að væna hana um að hafa gert eitthvað eða segja að ég hafi verið barnanna best, að koma okkur upp úr skotgröfunum í þessu og gera eins og við hv. þm. Björn Leví Gunnarsson vorum að ræða áðan, þ.e. ræða í alvörunni hvort við getum horft á töluna, velt því fyrir okkur hvort fólk geti raunverulega lifað af þessu og gert síðan raunhæfa áætlun um hækkanir sem taka mið af því að þetta fólk geti lifað af í samfélagi okkar og haft það bærilegt.