145. löggjafarþing — 52. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:02]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Svo ég byrji á húsnæðismálum Alþingis þá verð ég að taka undir að það sé vægast sagt furðulegt að tala um að byggja húsnæði fyrir Alþingi eftir teikningum sem eru yfir 80 ára gamlar því að það hefur ýmislegt breyst á þeim tíma varðandi kröfur sem eru gerðar til húsnæðis og hreinlega praktískra hluta í sambandi við hönnun og tækni sem ekki var til fyrir 80 árum, sem allir þingmenn nýta sér og starfsmenn Alþingis í daglegu lífi. Ég veit ekki betur en að það sem við höfum verið að ræða í hv. forsætisnefnd sé mun nútímalegra húsnæði, en ég get ekki svarað því af hverju þetta er merkt svona á þessum fjárlagalið. Ég veit ekki hvort það er talið á einhvern hátt „retró“ að vísa til 80 ára gamalla teikninga eða hvað það er.

Varðandi kjör öryrkja þá er það minnisstætt að til stóð við afgreiðslu síðustu fjárlaga að hækka bætur um 3,4%, að mig minnir, en við lokaafgreiðslu fjárlaganna var ákveðið að hækka ekki bæturnar um nema 3%. Það er það sem bæturnar hafa hækkað á þessu ári. Það er alveg ljóst að það nær á engan hátt að vera sambærilegt við þær kjarabætur sem launþegar hafa fengið á þessu ári. Þess vegna er ekkert annað en sanngjörn og eðlileg krafa að bætur lífeyrisþega verði hækkaðar afturvirkt líkt og meira og minna allir aðrir í landinu hafa fengið á þessu ári.