145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

bætur almannatrygginga og lægstu laun.

[10:39]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það mætti ætla að við værum stödd einhvers staðar í miðri kreppunni, að hér hefði verið mikil viðvarandi verðbólga og kaupmáttarrýrnun, en sem betur fer er það ekki þannig. Frá því ríkisstjórnin tók við hefur verðbólgan farið minnkandi og hún hefur verið stöðugt lág sem hefur tryggt gríðarlega kaupmáttaraukningu fyrir launþega og mikla kaupmáttaraukningu bóta, reyndar þannig að bætur munu aldrei í sögu Íslands hafa haft hærri og meiri kaupmátt en á árinu 2016 ef fram fer sem horfir.

Umræðan er öll á allt annan veg eins og hér sé verið að vega að lífskjörum. Þeir samfylkingarmenn sem tala með þessum hætti ættu að lesa nefndarálit þeirra samfylkingarmanna sem sátu í velferðarnefnd og lögðust gegn því að virkni væri skilyrði félagslegrar aðstoðar hjá sveitarfélögum. Þeir ættu líka að lesa ummæli Bjarkar Vilhelmsdóttur sem féllu fyrir nokkrum vikum um að svona hlutir skiptu máli. Samfylkingin (Forseti hringir.) lagðist gegn því að fólk ætti að sýna virkni, að sveitarfélögunum væri heimilt að gera það að skilyrði fyrir félagslegri aðstoð að fólk sýndi virkni við það að reyna að koma sér aftur til starfa. (Gripið fram í.) Þið lögðust gegn því. Svo komið þið hér og talið svona.