145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[02:51]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka forseta fyrir að leyfa mér að tala hér inn í nóttina og vonandi svæfa þá sem eftir eru í þingsal með minni (Gripið fram í: Hljómfögru.) hásu rödd sem farin er að líkjast rödd einhverrar konu sem ég vil ekki líkjast. Ég ætla nú að snúa mér að alvarlegri málum og fara aðeins yfir sviðið í þeim fjárlögum sem hér liggja fyrir.

Ég og fleiri höfum sagt að þessi ríkisstjórn sé fyrst og fremst ríkisstjórn ríka fólksins og þeirra efnameiri. Hún sýnir það með fjárlögum sínum. Þetta eru þriðju fjárlögin sem þessi ríkisstjórn afgreiðir og þau hafa öll borið þess vitni að þar er forgangsröðunin í þágu þeirra efnameiri, eins og hægri stefnur segja til um, við þurfum ekki að láta það koma okkur neitt á óvart. Þær ganga út á að auka misskiptingu, færa til fjármuni á milli þeirra efnaminni og efnameiri með ýmsum aðgerðum, draga úr jöfnunaraðgerðum og einkavæða sem mest, koma stofnunum og öðru í einkarekstur. Það er það sem verið er að gera hér, til dæmis með því að fara út í útboð á heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu. Hér er leynt og ljóst verið að draga fjármuni frá opinberu heilbrigðiskerfi inn í þann geira. Ég tel það vera stórhættulegt. Sú þróun mun geta farið hratt af stað, eins og snjóbolti. Það er svo hættulegt að veikja hið opinbera heilbrigðiskerfi því að þá verður eðlilega óánægja með þá þjónustu sem þar er í boði vegna fjársveltis. Fólk fer almennt að tala jákvæðar um hinar einkareknu heilsugæslustöðvar sem virðast hafa miklu greiðara aðgengi að fjármunum hjá ríkinu. Þannig halda hlutirnir áfram að rúlla og almenningur fer að verða jákvæðari gagnvart því þó að þegar upp er staðið auki það bara ójöfnuð hvað varðar aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu og það er ekki góð þróun.

Við berum vonandi öll hag spítalans okkar fyrir brjósti en hann er líka mjög illa settur. Ég ætla að vitna í forstjóra Landspítalans, Pál Matthíasson, sem segir, með leyfi forseta, að það vanti töluvert upp á skilning hjá stjórnvöldum varðandi fjárþörf Landspítalans fyrir næsta ár. Hann segir að þótt samþykkt hafi verið að endurskoða fjármögnun spítalans til framtíðar breyti það engu fyrir næsta ár. Það er mjög alvarleg staða. Í viðtali við forstjóra Landspítalans segir að fjárveitingar Sjúkratrygginga hækki sjálfkrafa ár frá ári vegna breyttrar aldurssamsetningar en svo væri ekki með Landspítalann.

Páll segir, með leyfi forseta:

„[Álagið] eykst á spítalanum ár frá ári, sem er eðlilegt og þarf ekki að koma neinum á óvart, og tengist í rauninni breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar. Það er það sem við erum að tala um að við þurfum að fá inn í módelið í rauninni sjálfkrafa hækkun þegar aldurssamsetning þjóðarinnar [breytist]. Við vitum að frá 2010 hefur álagið aukist að meðaltali um 1,7 prósent á ári. Þannig að allt það fé sem við fáum nýtt inn án þess að það sé gert ráð fyrir þessu er í rauninni eins og sparnaðarkrafa“.

Páll segir að það sé staðreynd að fjárframlög til spítalans hafi verið dregin saman áratugum saman, þar til síðustu tvö ár. Við vitum það alveg, Landspítalinn var í mjög slæmri stöðu þegar hrunið varð. Hann átti varla fyrir launum eða lyfjum.

Páll Matthíasson heldur áfram, með leyfi forseta:

„Það er engin frekja að óska eftir fé til að sinna sómasamlega veiku fólki. Það er bara hluti af því sem fylgir því að reka hér almennilegt nútíma þjóðfélag.“

Þetta eru orð frá manni sem þekkir málefni Landspítalans mætavel og á að taka mark á. En því miður virðist sem meiri hluti fjárlaganefndar taki ekki mark á hinum alvarlegu viðvörunarorðum forstjóra Landspítalans. Við munum auðvitað vel framgöngu formanns fjárlaganefndar í þessu máli þegar Páll Matthíasson og fleiri frá Landspítalanum komu á fund fjárlaganefndar. Formaður fjárlaganefndar sagði að þarna væri á ferðinni andlegt ofbeldi gagnvart sér þegar þessir aðilar lýstu alvarlegri stöðu Landspítalans.

Aðeins að öldruðum og öryrkjum sem verið hafa hér mikið til umræðu, eðlilega, vegna þess að við í stjórnarandstöðunni höfum lagt ofuráherslu á að vekja athygli á og gera kröfu á að kjör þeirra verði bætt, og þótt fyrr hefði verið, og bætt afturvirkt til 1. maí, eins og laun allra annarra launþega í landinu. Menn horfa oft til annarra landa til að bera saman kjör. Þá berum við okkur oftar en ekki saman við Norðurlöndin.

Ég ætla hér, með leyfi forseta, að vitna í orð Björgvins Guðmundssonar sem er fyrrverandi þingmaður og hefur skrifað mikið um málefni aldraðra. Ég hef áður vitnað í hann í ræðum mínum. Björgvin segir, með leyfi forseta:

„Í Danmörku spyrja stjórnvöld hvað þau geti gert til þess að bæta kjör og aðstöðu eldri borgara. Hér á landi leita stjórnvöld allra leiða til þess að komast hjá því að hækka lífeyri eldri borgara jafnvel þótt kaup launþega sé að hækka. Ólíkt hafast stjórnvöld að í þessum tveimur löndum. Það er mismunandi afstaða til eldri borgara í Danmörku og á Íslandi. Það er eins og Alþingi og ríkisstjórn á Íslandi séu andsnúin eldri borgurum. Það er orðið tímabært, að þessar valdastofnanir á Íslandi breyti um afstöðu til aldraðra og öryrkja og taki upp jákvæðari afstöðu til þeirra.“

Ég tek hjartanlega undir þessi orð Björgvins Guðmundssonar. Það er auðvitað mjög gott þegar við eigum svo öfluga málsvara vítt og breitt um þjóðfélagið til þess að tala máli aldraðra. Aldraðir og öryrkjar hafa ekki verkfallsrétt og treysta á okkur alþingismenn til að standa vörð um þeirra kjör og bæta þeirra kjör þegar aðrir launþegar þessa lands fá kjarabætur. Öryrkjar eiga líka mjög öfluga málsvara sem komið hafa virkilega vel á framfæri bæði við okkur alþingismenn og þjóðina alla hversu mikilvægt það er að bæta kjör þessara hópa og að við séum ekki stödd þar sem þessir hópar eru alltaf afturreka alls staðar. Við viljum að þeim séu búin sómasamleg kjör.

Ég segi enn og aftur að þessi fjárlög bera þess sterk merki að hér fer vond hægri stjórn. Landsbyggðin fer mjög illa út úr þessu fjárlagafrumvarpi, menntamál fara mjög illa út úr þessu fjárlagafrumvarpi, heilbrigðismálin fara illa út úr þessu fjárlagafrumvarpi, samgöngumálin fara illa út úr þessu fjárlagafrumvarpi og Landspítalinn okkar fer illa út úr því. Ef ekkert verður að gert er hætt við að eldri borgarar og öryrkjar fari illa út úr þessu fjárlagafrumvarpi. Ég ætla rétt að vona að menn sjái að sér og komi með breytingar á (Forseti hringir.) fjárlagafrumvarpinu og geri einhverja bragarbót þar á.