145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[17:09]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Mér er fyrirmunað að skilja af hverju núverandi fjármálaráðherra var ekki tilbúinn til að skipta um sæti þegar verið var að skipta um ráðherrastóla með þessari nýju ríkisstjórn sem við lýsum yfir vantrausti á. Ég vil lýsa yfir vantrausti á ríkisstjórnina þótt ekki væri nema bara út af þeirri staðreynd að hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson er enn þá ráðherra skattamála. Mér er fyrirmunað að skilja af hverju aðrir í ríkisstjórninni sjá ekki hversu óráðlegt það er. Það er ekki hægt að fara í afnám hafta með hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktsson sem ráðherra skattamála og fjármála. Svo einfalt er það, forseti.

Síðan verð ég að segja að mér finnst mjög leiðinlegt, kæru samþingmenn, að enginn frá stjórnarliðum hafi gert svo mikið sem biðja þjóðina afsökunar á því fáránleikaleikhúsi sem við höfum fengið að upplifa undanfarna daga. (Forseti hringir.) Mikil má skömm ykkar vera að taka þátt í þessu af eins mikilli meðvirkni og maður hefur orðið vitni að.