145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:26]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir það og við verðum að taka undir það, vissulega. Ég velti fyrir mér hversu stóran hlut sjálfkeyrandi bílar í framtíðinni gætu átt í því að gera umferðina dauðsfallalausa. Mér þykir það mjög spennandi framtíðarsýn. Ég hef alltaf haft mínar efasemdir um tölvur vegna þess að ég hef unnið svo lengi við þær að ég hef lært að treysta þeim ekki. Það er stundum sagt: Aldrei treysta tölvu sem þú getur ekki hent út um gluggann. Það er svo sem önnur saga.

Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður geti frætt okkur meira um það hversu langt slík verkefni eru komin á leið og hversu stóran þátt, ef einhvern, þau koma til með að eiga í því að draga úr áhættunum sem felast í umferðinni.

Maður hefði haldið að ef sjálfkeyrandi bílar eru orðnir nógu góðir geti þeir tekið fyrir hið mannlega vandamál, sem er margþætt en einkennist m.a. hreinlega af lélegri dómgreind á vondum tíma. Það væri eitthvað sem tölvur ættu að geta tekið fyrir, gerir maður ráð fyrir, ef maður kennir þeim rétt og ef tæknin þróast nógu vel til að fara með okkur á þann stað að við getum verið með dauðsfallalausa umferð. Það væri frábært ef þetta mundi leiða okkur þangað.

En mér þætti vænt um ef hv. þingmaður geti frætt okkur meira um það hvernig hann sér þátt sjálfkeyrandi bíla í því að gera umferðina dauðsfallalausa.