145. löggjafarþing — 108. fundur,  4. maí 2016.

grunnskólar.

675. mál
[18:04]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér verður mælt fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um grunnskóla. Á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir yfirstandandi 145. löggjafarþing er boðað að lögð verði fram tvö lagafrumvörp um grunnskóla, annars vegar frumvarp til laga um breytingu á grunnskólalögum sem fjallar um kæruleiðir, valdmörk ráðuneyta og starfrækslu frístundaheimila og hins vegar frumvarp til laga um sjálfstætt starfandi skóla. Upphaflega stóð til að sett yrðu heildarlög um sjálfstætt starfandi grunnskóla líkt og gert hefur verið í Danmörku og Noregi, en við samningu frumvarpsins varð það sjónarmið ofan á að ákjósanlegast var talið að kveða á um efnið í grunnskólalögunum og láta þannig ein og sömu lögin gilda yfir grunnskóla, óháð því hverjir sjá um rekstur þeirra. Það frumvarp sem ég mæli fyrir núna inniheldur því efni tveggja þeirra frumvarpa um grunnskóla sem boðað var að leggja fram á yfirstandandi löggjafarþingi á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar.

Hluti frumvarpsins var lagður fram á 144. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Í frumvarpinu eins og mælt er fyrir því í dag má þó finna mun ítarlegri ákvæði um sjálfstætt rekna grunnskóla en voru, auk þess sem nú eru lögð til ákvæði sem fjalla um frístundastarf nemenda í grunnskólum, en þau ákvæði mátti ekki finna í frumvarpinu eins og það var áður lagt fram. Það frumvarp sem hér er mælt fyrir er samið og lagt fram af ýmsu tilefni.

Í fyrsta lagi er aðeins fjallað um sjálfstætt rekna grunnskóla í einu ákvæði núgildandi grunnskólalaga. Þar segir að um sjálfstætt rekna grunnskóla gildi sömu lög og reglur og um grunnskóla sveitarfélaga eftir því sem við á. Þessi lagarammi er óskýr, hefur reynst ófullnægjandi og valdið vafa um framkvæmd grunnskólalaga. Með frumvarpinu er lagt til að brugðist verði við þessum óskýrleika með nauðsynlegum lagabreytingum.

Í öðru lagi skarast ákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, og 45. gr. grunnskólalaga sem fjallar um samvinnu sveitarfélaga um grunnskólahald. Með frumvarpinu er lagt til að brugðist verði við þessu ósamræmi á þann hátt að 45. gr. grunnskólalaga verði uppfærð til samræmis við ákvæði sveitarstjórnarlaga og þannig tryggt samræmi milli þessara tveggja lagabálka.

Í þriðja lagi hafa núverandi kæruleiðir þeirra stjórnvaldsákvarðana sem teknar eru á grundvelli grunnskólalaga valdið vandkvæðum í framkvæmd, auk þess sem þær hafa valdið notendum þjónustunnar ákveðinni óvissu. Í dag tiltaka grunnskólalög með nákvæmum og tæmandi hætti hvaða ákvarðanir eru kæranlegar til mennta- og menningarmálaráðuneytis, en aðrar ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna eru kæranlegar til innanríkisráðuneytis. Með frumvarpi þessu er lagt til að allar stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli grunnskólalaga verði kæranlegar til mennta- og menningarmálaráðuneytis og þannig leyst úr áðurnefndri óvissu.

Í fjórða og síðasta lagi er ákvæði 33. gr. grunnskólalaga sem fjallar um frístundaheimili frá árinu 1995, en síðan þá hefur starfsemi frístundaheimila þróast á ýmsan hátt. Mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur á undanförnum árum borist erindi frá ýmsum aðilum, þar á meðal umboðsmanni barna, þar sem lýst er áhyggjum af lagalegri umgjörð frístundastarfs. Með því frumvarpi sem hér er mælt fyrir eru lögð til ný ákvæði um frístundaheimili fyrir börn í yngri árgöngum grunnskóla með það að markmiði að gera ákvæði um efnið skýrari en nú er.

Virðulegi forseti. Vík ég nú að einstökum greinum frumvarpsins.

Með 1. gr. þess er lögð til breytt hugtakanotkun í grunnskólalögum þannig að framvegis verði rætt um skólaþjónustu í lögum en ekki sérfræðiþjónustu.

Í 2. gr. er tillaga þess efnis að 5. mgr. 6. gr. grunnskólalaganna falli brott. Í 9. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir breytingu á þessari reglu og verður 5. mgr. 6. gr. því óþörf og rétt að fella hana brott.

Með 3. gr. er lagt til að ákvæði sem veitir skólastjórum heimild til að ákveða útfærslu á starfstíma nemenda með þeim sem sjá um frístundastarf að höfðu samráði við skólanefnd, skólaráð viðkomandi skóla og foreldra.

Í 4. gr. frumvarpsins er kveðið á um að 33. gr. grunnskólalaga verði framvegis eingöngu látin ná yfir tómstunda- og félagsstarf og er því lagt til að fyrirsögn greinarinnar verði breytt, auk þess sem felld eru á brott ákvæði sem lúta að lengri viðveru. Þess í stað er lögð til ný grein sem fjallar eingöngu um frístundaheimili í 5. gr. Með 5. gr. frumvarpsins er lagt til nýtt lagaákvæði þess efnis að öllum börnum í yngri árgöngum grunnskóla skuli gefinn kostur á þjónustu frístundaheimila, en sveitarfélög ákveða hvernig staðið er að skipulagi starfsins. Sveitarfélögum verður þó heimilt að bjóða ekki upp á frístundaheimili ef gildar ástæður eru fyrir hendi, t.d. fámenni eða landfræðilegar aðstæður.

Lagt er til að heiti X. kafla laganna verði breytt í Sjálfstætt reknir grunnskólar, auk þess sem lögð er til breyting á 43. gr. grunnskólalaganna og að sex nýjar greinar bætist við lögin sem verði þá 43. gr. a til 43. gr. f.

Verður nú vikið nánar að því hvaða atriði þessar greinar innihalda.

Lagt er til að sjálfstætt reknir grunnskólar verði skilgreindir með 43. gr. grunnskólalaganna, auk þess sem ákvæðinu er ætlað að lýsa grundvallarþáttum í skipulagi skólahalds í sjálfstætt reknum grunnskólum. Með 43. gr. a verður fjallað um þjónustusamninga milli sveitarfélags sem skóli starfar í og rekstraraðila og að ráðuneytið skuli staðfesta slíka samninga. Þar verður einnig mælt fyrir um að sveitarfélag geti hafnað að gera slíkan samning eða takmarkað hann við tiltekinn nemendafjölda. Að lokum verður kveðið á um í tíu töluliðum hvað skal a.m.k. fjalla um í slíkum samningum.

Með 43. gr. b verður fjallað um fjárframlög úr sveitarsjóði, en þar er lagt til að núgildandi reikniregla fyrir opinberu framlagi verði óbreytt. Reglan hefur verið í gildi frá upphafi árs 2007. Þó er lagt til að opinber framlög verði uppreiknuð mánaðarlega en ekki árlega eins og nú er gert. Að lokum verður þar kveðið á um sérstaka heimild fyrir sveitarfélög að greiða stofnframlag til sjálfstætt starfandi skóla.

Með 43. gr. c verður fjallað um að rekstrarform sjálfstæðra skóla verði frjálst eins og nú er. Til að tryggja skýrleika í lagaframkvæmd og jafnframt að fullnægja að lagaheimild sé fyrir kröfum um skipulag rekstraraðilans er þó lagt til að með ákvæðinu verði mælt fyrir um almennar kröfur til einkaaðila sem reka grunnskóla í fjórum töluliðum, en þær kröfur má nú finna í reglugerð sem sett er með heimild í grunnskólalögunum.

Með 43. gr. d verður fjallað um almennar kröfur til skólahalds í sjálfstætt reknum grunnskólum í níu töluliðum. Tilgangur þessarar reglu er að tryggja lágmarksinntak þeirrar kennslu og þjónustu sem veitt er í sjálfstætt reknum grunnskóla og taka af allan vafa um samspil annarra ákvæða grunnskólalaganna og skólastarfs í sjálfstætt reknum skóla.

Í 43. gr. e verður mælt fyrir um í níu töluliðum þær sérstöku skyldur sveitarfélagsins sem virkjast þegar samningur þess við einkaaðila um grunnskólahald felur í sér að einkaaðilinn tekur að sér rekstur skóla sem börn eða foreldrar þeirra eiga ekki val um hvort þau innritast í. Tilgangur þessa ákvæðis er að árétta þær sérstöku skyldur sem virkjast þegar samningur sveitarfélags við einkaaðila um grunnskólahald felur í sér að einkaaðilinn tekur að sér rekstur eins eða allra skóla sveitarfélagsins. Á þessari reglu er allmikil þörf, enda miðast gildandi löggjöf fyrst og fremst við hina valfrjálsu sjálfstætt reknu skóla. Það hefur valdið vissum vandkvæðum í framkvæmdinni.

Almennt má segja að skyldurnar sem hér um ræðir leiði þegar af ábyrgð sveitarfélaganna á grunnskólahaldi og skyldu þeirra til að tryggja börnum á skólaskyldualdri aðgengi að gjaldfrjálsum grunnskóla. Hins vegar er ákaflega mikilvægt að grundvöllur samninga um þessi mikilvægu réttindi barna sé skýr og það er til hagsbóta fyrir sveitarfélögin, rekstraraðila skólanna, foreldra og börn þeirra að lögin mæli fyrir um lágmarksréttindi barna með almennum og gagnsæjum hætti.

Lagt er til að í 43. gr. f verði að finna reglugerðarheimild.

Með 7. gr. frumvarpsins er lögð til ný 45. gr. í samræmi við sveitarstjórnarlög, nr. 138/2011, þar sem mælt er fyrir um að ákvæði þeirra laga skuli gilda um samvinnu sveitarfélaga um grunnskólahald.

Samkvæmt 13. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi sem Ísland hefur fullgilt og 29. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem var lögfestur hér á landi með lögum nr. 19/2013 á skylda ríkisins til að tryggja börnum rétt til almennrar menntunar ekki að fela í sér íhlutun í rétt manna og hópa til að koma á fót og stjórna menntastofnunum enda sé ávallt gætt tiltekinna meginreglna um réttindi til menntunar og þeirra lágmarkskrafna til menntunar sem ríkisvaldið kann að gera. Í þessum ákvæðum er með öðrum orðum gert ráð fyrir frelsi til að stofna og reka menntastofnanir. Þetta frelsi byggist á og er nátengt rétti foreldra til að velja skóla fyrir börn sín sem og rétti þeirra til að ábyrgjast sjálf trúarlega og siðferðilega menntun þeirra. Á hinn bóginn felst ekki í umræddum ákvæðum neinn réttur til einkaaðila til fjárframlaga frá hinu opinbera til grunnskólahalds í sjálfstætt reknum skólum.

Því er með 8. gr. þessa frumvarps lagt til að við 46. gr. grunnskólalaganna bætist ný málsgrein þess efnis að ráðherra geti veitt rekstraraðila heimild til að starfa samkvæmt grunnskólalögum ef sveitarfélag hefur hafnað því að gera þjónustusamning við rekstraraðilann, en í þessu felst ekki réttur til opinbers framlags.

Með 9. gr. frumvarpsins er lagt til að allar stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á vegum grunnskóla og sveitarfélaga á grundvelli grunnskólalaga verði kæranlegar til mennta- og menningarmálaráðuneytisins, þar með taldar ákvarðanir sem teknar eru í sjálfstætt starfandi skólum.

Að lokum, virðulegi forseti, er með 10. gr. lagt til að heiti XI. kafla laganna verði breytt í Þróunarskólar, samrekstur, heimakennsla, úrlausn ágreiningsmála o.fl.

Í ítarlegri greinargerð með frumvarpinu er farið dýpra yfir hverja efnisgrein þess og þau atriði sem ég hef tæpt á í ræðu minni.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allsherjar- og menntamálanefndar.