145. löggjafarþing — 113. fundur,  20. maí 2016.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

777. mál
[17:40]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Þegar maður er að fjalla um svona stóra fjármálagjörninga á maður að vera með ónot í maganum. Maður á að vera óöruggur og þannig líður mér. Ég hef fengið kynningu á stóru myndinni á þessu frumvarpi og þessari leið og mér sýnist á öllu eftir þá fundi sem ég hef verið á til kynningar á málinu — hún er að sjálfsögðu frekar yfirborðsleg og mun verða mjög yfirborðsleg þó að við liggjum yfir þessu allan sólarhringinn þangað til á sunnudag. Þetta er 40 blaðsíðna frumvarp um mjög flókna fjármálagjörninga, 27 greinar. Ég hef ekki séð reglugerðina sem vísað er í sem á að koma frá fjármálaráðuneytinu þannig að ég verð bara að segja að ég er óörugg. Ég verð líka að segja að mér hefði þótt skynsamlegra að bíða þangað til nýtt þing væri komið til að fara í þessa aðgerð til að fullkomið traust og trúnaður ríkti gagnvart þessari framkvæmd. Þetta er það stórt mál. Ég upplifi stundum að við séum svolítið bernsk og það er litið þannig á okkur úti í hinum stóra heimi. Við getum ekki horft fram hjá því hvernig svo sem skýringarnar eru hjá hæstv. fjármálaráðherra að skattamálaráðherra okkar var með aflandsfélag. Við getum ekki horft fram hjá því. Í mörgum öðrum löndum væri ráðherrann, þó að hann væri ekki ráðherra fjármála, búinn að segja af sér eða a.m.k. stíga til hliðar.

Nú erum við að fjalla um einn stærsta fjárflutningagjörning í sögu landsins og hann er í umboði ráðherra sem nýtur ekki mikils trausts meðal þjóðarinnar. Ég er hugsi yfir því. Þið verðið að fyrirgefa, ég ætla bara ekkert að skafa utan af hlutunum hér. Ekki ætla ég að standa í vegi fyrir þessu af því að ég hef enga burði til þess en þess vegna er enn mikilvægara að við gefum okkur allan þann tíma sem við mögulega getum fengið, hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar, að við skoðum mjög vandlega ábendingar. Við skulum ekki gleyma því, og það truflar mig mest við þetta allt saman, að fjórir aðilar, sjóðir eða félög, eiga 50% af þessum krónum, eignum. Sex aðilar eiga 65%. Ég hef ekki getað fengið nein svör við því hverjir þetta eru í raun og veru.

Mér finnst mjög alvarlegt að við séum að fara í gjörning sem er ómögulegt að segja hvort sé brunaútsala eða ekki. Við getum ekki verið fullviss um neitt í þessu. Við rennum hér blint í sjóinn með aðilum sem ég verð að segja að er ekki mikið traust gagnvart. Nú stendur upp á þingið að tryggja að þessi gjörningur verði til þess að auka traust á fjármálakerfi okkar og á Alþingi.