145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[17:10]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Björt Ólafsdóttur fyrir ræðu hennar þar sem hún kom inn á ýmis atriði sem ég hef einmitt velt fyrir mér þegar ég hef kynnt mér þetta mál, frumvarp til laga um námslán og námsstyrki. Það er aðallega tvennt sem mig langar að eiga orðastað við hv. þingmann um. Fyrra atriðið er það sem hv. þingmaður talaði um, að fólk á Íslandi sé oft að fara seinna í nám og með einhverja meiri lífsreynslu, eða eins og þingmaðurinn held ég að hafi orðað það, fólk fari ekki eins blautt á bak við eyrun út á íslenskan vinnumarkað. Mig langar að ræða þetta aðeins af því að eitt af því sem ég hef séð sem svo mikinn kost við íslenskt samfélag er að maður getur skipt um kúrs. Ef maður er kominn á einhverja braut hefur verið hægt að breyta um síðar á lífsleiðinni. Ég hef áhyggjur af því að verið sé að þrengja að fólki sem fer ekki það sem stundum er kallað beinu leiðina í gegnum lífið. Það er þá annars vegar með því að sett hafi verið takmörk í framhaldsskólana þar sem þeir sem eru eldri en 25 ára hafa núna miklu minna aðgengi að framhaldsskólunum og svo t.d. með því að draga úr lánsgetu þeirra sem eru eldri. Er hv. þingmaður sammála mér um (Forseti hringir.) að þarna geti orðið miklar samfélagsbreytingar og ekki endilega til hins góða?