145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[17:13]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er svo sannarlega sammála þingmanninum. Við vitum auðvitað að samfélagsgerðin hefur breyst þannig, og mun breytast mun meira í þá átt, að við erum ekki steypt í eitthvert mót, fæðumst, förum í grunnskóla, förum í framhaldsskóla, vinnum eitthvað á sumrin, förum í háskóla og dúllumst á einhverri skrifstofu í starfi sem frændi einhvers reddaði manni. Svo vinnur maður þar alla ævi. Þetta er ekkert svona. Ég fagna því að veruleikinn í dag sé þannig að fólk geti fylgt meira draumum sínum, fundið út í hverju það er virkilega gott, numið það og starfað við það. Svo getur áhugasviðið breyst og það er gott fyrir samfélagið að fólk geri það sem það er best í. Það er meiri framleiðni í því heldur en að fólk sé að drattast í einhverju sem því finnst hundleiðinlegt. Það veit hver maður að það hefur ekki mikið upp á sig og ekki mikið til langs tíma.

Ég man núna það sem ég vildi spyrja ráðherra um, og ég veit að þingmaðurinn hefur áhuga á því líka, og mig langar að koma því að. Núna er verið að takmarka einhvern veginn mánuðina, núna er verið að takmarka einingafjöldann, og ég hef áhyggjur af því hvernig þetta mun koma við hópa eins og öryrkja sem geta ekki fötlunar sinnar eða aðstæðna vegna sinnt námi í níu mánuði ársins „streit“, eins og maður segir. Hvað mun koma fyrir þetta fólk? Ég hef áhyggjur af því og velti fyrir mér hvort þingmaðurinn hafi það ekki líka.