145. löggjafarþing — 140. fundur,  25. ág. 2016.

afgreiðsla mála á sumarþingi.

[11:02]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég hygg að það hafi komið fram í opinberri yfirlýsingu frá Alþingi í gær að fjölmargir þingmenn væru að störfum fyrir hönd þingsins, m.a. erlendis, og aðrir hefðu einnig verið uppteknir við ýmis önnur störf úti í kjördæmum. Þess vegna hafi ekki verið hægt að manna atkvæðagreiðslu í gær. (Gripið fram í.) Það getur komið fyrir og hefur oft komið fyrir og mun væntanlega koma fyrir einhvern tíma í framtíðinni að það verði ekki hægt. Ég hef nú prófað að sitja í forsetastóli og telja og ég held að þetta geti komið fyrir.

Varðandi stjórnarskipunarfrumvarpið, þessar þrjár breytingar á stjórnarskránni, var það lagt fram á Alþingi í morgun sem þingmannafrumvarp af forsætisráðherra, alveg eins og hefur verið rætt, m.a. við alla fulltrúa stjórnarandstöðunnar núna um alllangt skeið, að það væri það sem við hygðumst gera ef ekki næðist víðtæk samstaða um að leggja frumvarpið fram eins og upphaflega var áætlað. Mér finnst mikilvægt og hef lýst þeirri skoðun minni ítrekað að þingið fái að takast á við þetta. Nú er glugginn opinn til þess að fjalla um þau mál. Það eru kosningar eftir ekki langan tíma og að þeim loknum kemur saman nýtt þing sem gæti samþykkt það mál, ef þinginu tækist að afgreiða þessar þrjár nýju greinar í stjórnarskránni sem við höfum fjallað um, eins og mörg önnur mál, býsna lengi. Það má alveg halda því fram að um sé að ræða kannski tíu, jafnvel fimmtán ára undirbúning, í það minnsta sex ár sem hefur verið unnið markvisst að ákveðnum breytingum. Þetta varðar fyrsta lagi auðlindaákvæði, í öðru lagi grein um aukna aðkomu þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslum, og síðan grein um náttúru landsins og stöðu hennar. Ég tel að þarna væri tækifæri til þessara breytinga.

Varðandi önnur mál munu þau birtast hér (Forseti hringir.) í þinginu þegar þau hafa verið afgreidd út úr ríkisstjórn.