145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[21:38]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að kveða upp úr um það og svara þessari spurningu hvorki játandi né neitandi. Ég treysti mér ekki til þess. En það mikið hef ég starfað að þessum málum, eins og hv. þingmaður bendir réttilega á, að ég tel alveg tvímælalaust að það ætti að kalla fyrir löglærðan sérfræðing í stjórnarskránni einmitt til að svara þessari spurningu. Ég hef í störfum mínum í umfjöllun um stjórnarskrána meira hugsað um hinn pólitíska rétt og hinn borgaralega rétt en að vera í tæknilegum lagaatriðum í þeim efnum, enda tel ég að stjórnarskránni sé allt of mikið beitt í lagalegum skilningi. Á hinn bóginn tel ég einsýnt að nefndin hljóti að kalla fyrir sig löglærðan sérfræðing og prófessor helst í stjórnskipun við Háskóla Íslands og spyrja að því hvort þetta standist stjórnarskrána. Vissulega er verið að semja til langs tíma. Eins og hv. þingmaður bendir á er jafnvel spurning hvort þurfi að spyrja Bændasamtökin um tollkvóta. Þá erum við komin ansi langt finnst mér. Alþingi Íslendinga verður að huga að því að framselja ekki frá sér slíkt vald.