145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[19:31]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki betur en verið sé að leggja til aukinn innflutning á ýmsum kjötvörum. Það er ýmislegt sem er nú þegar verið að flytja inn, það er alveg rétt, og auðvitað þurfum við líka að fylgjast því hvernig sú vara er framleidd og hvort það séu sýkingar í þeirri vöru. Það kom fram fyrir nefndinni að það væri meira um slíkar sýkingar í Evrópusambandslöndum. Það kom líka fram fyrir nefndinni að fjármuni skorti til að fylgjast með þessu. Það sem bændur höfðu áhyggjur af var að hér væri verið að auka innflutning og það gæti haft áhrif á atvinnuumhverfi þeirra. Ég held að það sé eitt af því sem við þurfum að taka tillit til.

Þá kemur aftur að því hvernig eigi að túlka það sem segir í samningnum. Þar bar mönnum ekki saman um hvort verið væri að tala um kjöt á beini eða beinlaust. Það hefur auðvitað áhrif á hvaða kílóatölur við erum að tala um þegar kemur að innflutningi. Þarna bar mönnum alls ekki saman um það hver væru hin raunverulegu áhrif af þessum samningi. Það er eitt af því sem ég tel að þurfi að fara betur yfir áður en við samþykkjum hann.