145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

einkarekstur í heilsugæslunni.

[11:36]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Nú er það svo að læknarnir sem eru að koma á nýju stöðvarnar eru ekki að koma frá útlöndum, bara svo það sé sagt hér. Við hæstv. forsætisráðherra erum sammála um að mikilvægt sé að styrkja heilsugæslustöðina og styrkja rekstur þeirra. En ég vil biðja hæstv. forsætisráðherra að svara mér skýrar þegar ég spyr: Telur Framsóknarflokkurinn það rétta leið til að styrkja heilsugæslustöðvarnar að bjóða þær út og láta stöðvarnar keppa um sjúklinga? Finnst Framsóknarflokknum það góð leið og rétta leiðin í þeirri stöðu sem við erum í núna þegar styrkja þarf grunnstoðir heilbrigðisþjónustunnar að bjóða þær út og setja á fleiri stöðvar sem eru reknar (Forseti hringir.) af læknunum sjálfum eða félögum úti í bæ?