145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

starfsáætlun og framhald þingstarfa.

[13:42]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við erum hér á síðasta degi þingsins samkvæmt starfsáætlun. Þetta er sérstakur vinnustaður, Alþingi, löggjafinn. Það þætti skrýtið einhvers staðar að starfsfólk — fulltrúar þjóðarinnar, við sem erum hér, 63 þingmenn — vissi ekki hvernig næsta vika lítur út. Ef forstjórinn mundi ekki vilja gefa það upp nema kannski hluta fólks á vinnustaðnum. Þannig lítur þetta út gagnvart okkur, minni hlutanum, við vitum ekki neitt.

Mér virðist ástandið vera þannig að okkur sé haldið í gíslingu Framsóknarflokksins þar sem það liggur ekki fyrir hver verður kosinn formaður Framsóknarflokksins, það liggur ekki fyrir við hvern á að semja. Þannig er nú bara málið. Þingið stendur og fellur með því hver verður formaður Framsóknarflokksins. (Forseti hringir.) Gallup var búið að kanna þetta fyrir okkur, getum við ekki bara farið að semja við þann sem Gallup hefur talið að vinni í þeim kosningum?