145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[17:00]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta er spurning um hvort kemur undan, eggið eða hænan. Þessi valkostur hefur ekki verið í boði og þess vegna hefur ekki reynt á það. Þetta þarf allt undirbúning og ef þessir ferðapakkar væru í boði fram í tímann kæmi í ljós hvort flugið gæti mætt þeirri þörf. Ég held að það sé bara mjög spennandi og yrði til að ýta undir heilsársferðaþjónustu víða og að ferðamenn hefðu möguleika á að skoða allar þær náttúruperlur sem Ísland hefur upp á að bjóða.

Aðeins varðandi fjármögnun á samgöngumálum hér innan lands. Þótt fram hafi komið að ferðaþjónustan gefi af sér eitthvað um 70 milljarða í ríkiskassann og þó að ekki sé verið að greiða nema 11% virðisaukaskatt í þeim geira, sem er lægri upphæð en almennt gerist í atvinnulífinu, eru það gífurlega háar fjárhæðir. Svo það þarf að fara að horfa til þess almennt hvernig fjármagna skal samgönguuppbyggingu í landinu. Það er nú meira pólitísk ákvörðun og spurning um forgangsröðun að ekki hefur verið nýtt það fjármagn sem komið hefur inn vegna mikillar aukningar í ferðaþjónustu.

Varðandi opinber fjármál hefur verið rætt um að ekki eigi að vera neinir markaðir tekjustofnar, eins og verið hefur gagnvart vegagerð í landinu. Mig langar aðeins að heyra viðhorf hv. þingmanns gagnvart því hvaða breytingar hún sér fyrir sér í þeim efnum. Bílar eru auðvitað að breytast varðandi orkuskipti, hybrid-bílar, rafmagnsbílar og fleira, svo það mun ekki eiga við um alla umferð. Við þurfum að horfa til annarra þátta varðandi framlög til vegamála.