145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

höfundalög.

870. mál
[12:34]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er kannski rétt að skýra aðeins stefnu Pírata í þessu máli. Málið fjallar um löglega afritun, sem þýðir að ef fólk á t.d. kassettu og geisladisk þá má það taka upp það sem er á geisladisknum á kassettuna, ef fólk hefur keypt geisladiskinn með einhverju efni. Þetta er umdeilt, eins og hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra kom inn á, þar sem t.d. listamenn, svo sem ljósmyndarar o.fl., borga þá stefgjöld af eigin hugbúnaði sem þeir nota, þar af leiðandi minniskortum. Það þykir ósanngjarnt. Sú leið sem er verið að fara hefur kosti og galla en þar sem þetta er í raun uppfærsla á og betrumbætur á því fyrirkomulagi sem hefur verið, málamiðlun, sem þessi kassettugjöld eru fyrir löglega afritun, þá getum við Píratar stutt málið. Þetta er í takt við þá framþróun sem hefur verið í tækninni og því getum við stutt það og einnig vegna þess að þetta hefur með löglega afritun að gera og ekkert með ólöglega afritun.