145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

vaxtagreiðslur af lánum almennings.

[15:27]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessar umræður. Sumar hafa verið með gamalkunnu stefi en til að svara einni spurningu strax er svarið: Nei, mig langar ekki að sitja í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands. Ég hef engan áhuga á því. Og ég hef engan áhuga á því að pólitíkusar ákveði vexti handvirkt eins og var gert þegar við vorum ung, sum okkar. Ég hef heldur engan áhuga á að búið verði til nýtt normalbrauð eins og gert var áður til að fiffa vísitölu. Það er ekki það sem ég hef áhuga á.

Ég fagna því hins vegar sem hæstv. fjármálaráðherra segir, auðvitað er stöðugleikinn sem hefur verið að myndast á Íslandi grundvöllur að því að menn treystist til að fara í þær endurbætur sem þarf að fara í til að vextir lækki hér. Það er aftur á móti annað að þegar hver sérfræðingurinn af öðrum, og þeir eru til víðar en í Seðlabankanum, kemur fram og segir að peningastefnan á Íslandi og vaxtastefna Seðlabankans sé galin — ég get nefnt doktor Eric Stubbs sem er fjármálaráðgjafi hjá Royal Bank of Canada sem var með grein í Morgunblaðinu um daginn, Marinó Njálsson hagfræðing, doktor Ólaf Margeirsson o.fl. Ef ég mundi ekki taka undir það sem þessir vísu menn segja og benda á væri ég að bregðast þeim sem kusu mig til þings. Ég væri að bregðast almenningi í landinu sem kaus mig til að vera hér. Ef ég væri ekki rödd þessa fólks væri ég að bregðast skyldum mínum.

Mér er alveg sama hvort það er Seðlabankinn, Landsbankinn eða einhver annar, það þarf að benda á þar sem maður telur að betur geti farið. Ég tek hins vegar heils hugar undir með hæstv. ráðherra, auðvitað er það sá stöðugleiki sem við myndum, hægt og hljótt, sem á endanum myndar það traust sem er nauðsynlegt til að við getum gert breytingar. Það særir mig ögn að svo virðist sem þeir sem ráða ríkjum í Seðlabankanum hafi ekki nógu mikla trú á þeim stöðugleika (Forseti hringir.) sem er verið að mynda. Það er eins og þeir séu seinastir manna til að öðlast þá trú og þann kjark sem þarf til að höggva á þennan hnút, þótt ekki sé það gert í einni handarvendingu. Ég er líka sammála hæstv. ráðherra um að þetta þarf tíma.