145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[12:05]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Flest af því sem hv. þm. Árni Páll Árnason spurði um er í rauninni ekki spurningar til mín heldur spurningar til annarra nefndarmanna. Afstaða mín lá alveg ljós fyrir í því nefndaráliti með breytingartillögu sem ég lagði fram í gær.

Í rauninni fór lítil skynsamleg umræða fram í nefndinni um þetta mál. Málið var hertekið af hv. formanni nefndarinnar, Frosta Sigurjónssyni, og hans meðreiðarfólki sem ritaði undir þetta gáfulega nefndarálit og ég er algerlega óbundinn af.

Ég get alveg tekið undir það sem hv. þingmaður sagði um vaxtakjör á liðnu ári og ég tel að Alþingi geti ekki borið ábyrgð á svona þjösnaskap að vísa fólki á dýrustu lán sem til eru, það er bara algjör óþarfi. Ég segi ósköp einfaldlega að til er mæling á vilja fólks. Hún er ósköp einfaldlega þær lánsfjárhæðir sem fólk hefur tekið að láni til fasteigna, til þeirra lána. Þar kemur í ljós að langflestir taka svokölluð verðtryggð lán þar sem verðtryggingin, verðbólgan, verðbótaþátturinn er mældur eins og ég segi með hlutlægum hætti. Mér kemur þetta bara ekki við. Ég vil bara að fólk fái að velja sín lán. Það er ósköp einfaldlega það sem ég er að biðja um hérna. Kostnaðarauki af þessu máli kann vissulega að vera einhver, en bíddu við, á að fara að ívilna einu lánaformi? Hvert erum við komin? Ég tilheyri Sjálfstæðisflokknum sem getur ekki fallist á svona ofstjórn og ofstopa á lánamarkaði. Við skulum leyfa fólki að taka venjuleg lán.

Ég endurtek að flestum af spurningum hv. þingmanns ber að beina til meiri hluta nefndarinnar.