145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[15:11]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð nú bara að viðurkenna að ég skil þetta heldur ekki. En ég er heldur ekki búin að sitja í hv. velferðarnefnd. Ég hef ekki einu sinni komið þangað inn sem áheyrnarfulltrúi, sem er svolítið sérstakt. Við píratar erum svokallaðir nefndaflakkarar. Ég hef setið í flestum nefndum, alla vega sem áheyrnarfulltrúi.

Það sem ég skil hins vegar ekki er að nefndarmaður í nefnd á hinu háa Alþingi, eftir þriggja ára setu í nefnd sem fjallar að miklu leyti um almannatryggingakerfið, skuli ekki eftir þrjú ár hafa fengið þær upplýsingar eða útskýringar á kerfinu, t.d. á þessari breytingu, hvaða áhrif hún muni hafa í för með sér. Er ekki einhvers staðar pottur brotinn? Mér skilst að minni hluti nefndarinnar hafi beðið um einhverja sviðsmyndargreiningu á þessu. Er það út af því að aðstaða þingsins er ekki nógu góð? Er þetta eitthvað sem við þurfum að bæta í okkar fari? Ég á rosalega erfitt með það þegar ég heyri að hv. þingmaður sem hefur setið í þessari nefnd komi bara og viðurkenni að hann skilji þetta ekki að miklu leyti, einfaldlega af því að þetta er svo flókið. Hugsunin á bak við allar þessar skerðingar og bætur liggur kannski ekki alveg beint við.

Ég á svolítið erfitt með að átta mig á þessu máli öllu saman. Ég tel náttúrlega jákvætt að verið sé að hækka bætur, en skil t.d. ekki af hverju er dregið af þeim sem eiga maka. Ég þigg ekki lægri laun af því að vera í sambúð. Ég skil ekki af hverju maður á að gera það. Er þetta eitthvað nýtt? Hefur þetta alltaf verið svona? Til hvers erum við að gera þetta? Hvaða áhrif hefur þetta í raun og veru á samfélagið? Býr þetta ekki bara til vesen? Hvert er markmiðið með þessu?