146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[18:35]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa athugasemd og spurningu sem til mín er beint. Mér finnst hv. þingmaður hafa leitast svolítið við það í spurningum sínum í þessari umræðu að segja: Eigum við ekki bara að skella þessu öllu á ís og bíða aðeins og gefa þessu eitt, tvö, þrjú ár í viðbót í umræðu áður en við getum afgreitt frá okkur rammaáætlun? Því sjónarmiði er ég ekki sammála. Ég tel að rammaáætlun sé stöðugt verk í vinnslu. Ég held að við eigum stöðugt að vera að þróa hana áfram og vinna með hana. Það má vel vera að við viljum á endanum breyta því verklagi að verkefnisstjórn vinni með þær áfram, þess vegna á milli samþykktra áætlana, og þrói þær, rannsaki frekar kosti í bið og annað þess háttar. En ég held að það sé líka mjög mikilvægt, af því að það er það stór hluti af ferlinu, sér í lagi þegar kemur að nýtingarhluta áætlunarinnar sem á sér stað eftir að kostir hafa verið settir í nýtingarflokk, þ.e. hvort yfir höfuð er mögulegt að nýta þá, að við séum alltaf með ákveðinn nýtingarflokk fyrir framan okkur til að geta unnið með hann.

Við erum stöðugt að þróast í þessum efnum, við erum stöðugt að uppgötva ný tækifæri og við eigum alltaf að horfa til nýrra möguleika í þessum efnum, en við eigum um leið að axla þá ábyrgð sem þing að klára rammaáætlun, ljúka vinnu við hana, greiða um hana atkvæði og gefa þá bæði nýtingu verndarhlutans, þ.e. þegar kemur að ferðaþjónustu, öðrum þáttum, fyrir utan hina ósnortnu náttúru, en líka virkjunarþættinum í þessu, ákveðna vissu og fyrirsjáanleika fram á við. Það er það sem okkur ber skylda til að gera og ég veit að þingið mun ekkert heykjast á þeirri ábyrgð að taka afstöðu til þessarar tillögu.