146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

menntamál og stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar.

[16:34]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Umræðan kemur víða við og það verður mjög áhugavert að heyra hvað hæstv. ráðherra hefur að segja um þau atriði sem við höfum komið inn á hér. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þm. Andrési Jónssyni varðandi áhyggjur af notkun á samræmdum prófum og þeim breytingum sem nú eru að eiga sér stað. Ég var að lesa grein á RÚV núna fyrir skömmu þar sem kennarar tjá sig og lýsa furðu sinni yfir þessum vinnubrögðum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hver er stefnan? Hvaða tímalínu höfum við til að undirbúa okkur fyrir þessar breytingar?

Mig langar til að nefna annað, fjarnámið, byrjum á því. Þar tengjum við aftur kannski við 25 ára regluna og mismunandi aðgengi fólks að námi. Við erum náttúrlega með háskólabrýr núna í nokkrum skólum sem þjónusta þennan eldri hóp mjög vel sem hefur einhvern veginn fallið milli skips og bryggju, og að hluta til er það fólk í fjarnámi. Háskóli Íslands hefur setið eftir varðandi þróun á sínu fjarnámi. Aðrir skólar standa sig mun betur, t.d. HA, Bifröst og fleiri skólar. Mig langar til að heyra áherslur hæstv. ráðherra varðandi fjarnám og uppbyggingu þess.

Að síðustu, verknámið. Við höfum lengi talað um mikilvægi verknáms, og það er alveg þvert á flokka. Okkur skortir verkmenntað fólk. Sumar verknámsgreinar eru hreinlega að deyja. Það er enginn sem sækir í þær. Til dæmis skósmíði og fleiri slíkar greinar, múrverk og fleira. Mig langar því til að heyra frá hæstv. ráðherra: Hvað ætlum við að gera? Við erum sammála um mikilvægi verknáms. Við erum sammála um að það þarf að byggja það upp. Hvernig ætlum við að gera það? Liggur einhver áætlun fyrir? Hyggst ráðherra leggja slíka áætlun fram?