146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

samkomulag ríkis og sveitarfélaga um lífeyrismál.

[14:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Það sem hér um ræðir er samkomulag sem ég held að skrifað hafi verið undir 28. október sl. Þá var talað um að ríkið myndi taka yfir 97% af skuldbindingum vegna tiltekinna stofnana miðað við 31. desember árið 2015. Í framhaldi af þessu var síðan gengið frá samningum, og þeir undirritaðir, við tvö sveitarfélög, þ.e. Akranes og Akureyri, sem voru í samræmi við þetta samkomulag. Síðar kemur fulltrúi frá Akranesi fram og telur að þetta sé ekki eðlilegt af ýmsum ástæðum, að þarna hafi ríkið eiginlega ekki gert rétt. Þrátt fyrir að miðað sé við 31. desember árið 2015 taldi ég eðlilegt — vegna þess að í meðförum þingsins vegna frumvarps um málið, sem var eftir að þetta samkomulag var gert, var dagsetningunni 31. desember 2015 breytt í 2016 — að miðað yrði við sömu dagsetningu við sveitarfélögin.

Ég tjáði sveitarfélögunum að mér fyndist það sanngjarnt og eðlilegt og væri ríkinu að meinalausu að breyta því. Ég hygg að það hafi líka verið gert almennt í samræmi við það sem ákveðið var í þinginu varðandi skuldbindingar gagnvart lífeyrissjóðunum. En ríkið stendur að sjálfsögðu við það sem undirritað var.