146. löggjafarþing — 76. fundur,  31. maí 2017.

orkuskipti.

146. mál
[14:18]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Aðgerðaáætlun í orkuskiptum er mál sem við getum öll sameinast um. Það er mjög mikilvægt að fjármagn fylgi tillögunni. Þetta er tillaga til ársins 2030 og er endurmetin á fimm ára fresti. Minn fyrirvari við málið er að stjórnvöld hverju sinni tryggi fjármagn til að fylgja þeim mikilvægu markmiðum sem fram koma í tillögunni. Þetta eru mjög metnaðarfull markmið. Það þarf líka að auka fjármagn til rannsókna og tækniþróunar því að allt kostar þetta pening. Við þurfum að byggja upp innviði landsins svo í raun sé hægt að fara út í orkuskipti, hvort sem er á landi, sjó eða í lofti. Það er ekki nóg að setja fallega aðgerðaáætlun í orkuskiptum á blað, við þurfum líka að sýna það í fjárlögum hverju sinni að fjármunir fylgi öllum þeim brýnu verkefnum sem hér (Forseti hringir.) eru færð til bókar.