146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[18:19]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það virðist vera óbragð í munni sumra þingmanna hjá Viðreisn sem reyna að afsaka það í bak og fyrir að þeir vilji helst ekki að málið sé hérna inni en eru nú samt að greiða því atkvæði og ætla aldrei að gera það aftur ef það kemur til.

Lögunum var breytt árið 2010 til að koma í veg fyrir að ráðherrar skipuðu dómara pólitískt og án faglegs mats á hæfi þeirra þótt það hafi tíðkast hér áður fyrr. Nú er hæstv. dómsmálaráðherra í rauninni að fara akkúrat í hina áttina, eins og hér hefur komið fram, þótt hún hafi vissulega til þess heimild. Þetta snýst ekki um fólkið sem hér er um að ræða, snýst ekki um sjö karla og fimm konur eða guð má vita hvað, þetta snýst um meðferð málsins hér innan þings. Og hættið að reyna að snúa þessu upp í eitthvað allt annað en þetta er. (Gripið fram í.) Gagnrýni minni hlutans snýr að því hvernig málsmeðferð hefur verið háttað hér innan þings, ekki um það hvort þeir sem hér hafa verið valdir á lista af hálfu ráðherra séu hæfari en hinir (Forseti hringir.) eða ekki, heldur um málsmeðferðina. Við höfum ekki fengið gögn í hendurnar sem sanna það svo óyggjandi sé og málsmeðferð er ekki lokið. Um það snýst málið.

(Forseti (UBK): Þingmaðurinn segir?)

Þingmaðurinn segir nei.