148. löggjafarþing — 1. fundur,  14. des. 2017.

rannsókn kjörbréfa.

[16:02]
Horfa

Frsm. kjörbn. (Birgir Ármannsson) (S):

Herra forseti. Kjörbréfanefnd hefur hist og farið yfir þau mál sem til hennar verksviðs heyra. Þess er rétt að geta að í aðdraganda þingsetningar hittist undirbúningshópur sem samanstóð af sömu þingmönnum og síðar voru kjörnir í kjörbréfanefnd til þess að fjalla um þau álitamál sem fyrir lágu. Átti þessi óformlegi undirbúningshópur fjóra fundi í aðdraganda þingsetningar til þess að átta sig á þeim álitamálum sem þar var um að ræða. Eftir að kjörbréfanefnd var kjörin fyrr í dag fundaði nefndin formlega og lauk umfjöllun um þessi atriði.

Fyrir kjörbréfanefnd lá fyrst og fremst að fjalla um ágreiningsseðla sem til hennar voru sendir af hálfu yfirkjörstjórna í einstökum kjördæmum. Í nefndaráliti sem hefur verið útbýtt er farið yfir hver álitamálin voru og hver niðurstaða kjörbréfanefndar var í hverju tilviki fyrir sig og tel ég ástæðulaust að rekja það hér heldur vísa til þeirrar niðurstöðu sem þarna er að finna. Ég vil geta þess að í okkar vinnu var full samstaða um þá niðurstöðu sem lesa má út úr álitinu.

Eins og gengur var í sumum tilvikum niðurstöðum kjörstjórnar breytt en í öðrum tilvikum voru niðurstöður staðfestar. Í nefndarálitinu kemur fram að tillögur hennar um niðurstöður hvað varðar þessi ágreiningsatkvæði voru ekki þess eðlis að það hefði með neinum hætti áhrif á úrslit alþingiskosninganna og var stuðst við upplýsingar frá starfsmönnum landskjörstjórnar hvað þau atriði varðaði þannig að ekkert af því sem við vorum að fást við þarna hafði eða gat haft áhrif á niðurstöður alþingiskosninganna sem slíkra.

Í áliti okkar er eins fjallað um önnur atriði og þá vil ég fyrst nefna að til kjörbréfanefndar barst kæra sem varðaði framkvæmd kosninga í Norðausturkjördæmi. Kom fram við umfjöllun nefndarinnar að kæra vegna þessa máls væri til meðferðar hjá lögreglustjóra á viðkomandi svæði. Um þetta segir í nefndaráliti, og ég vitna beint til textans:

„Nefndin leggur af þessu tilefni áherslu á mikilvægi þess að skjótt sé brugðist við einstökum kærum sem beint er til hlutaðeigandi lögreglustjóra, samanber 119. gr. laga um kosningar til Alþingis. Að mati hennar styrkir slíkt framkvæmd og eykur tiltrú á frjálsar og lýðræðislegar kosningar. Jafnframt leggur nefndin hér áherslu á mikilvægi þess að kjörstjórnir gæti samræmis í framkvæmd sinni. Það er álit nefndarinnar að til að stuðla að slíku sé mikilvægt að kjörstjórnir bóki í gerðabækur sínar, samanber 1. mgr. 19. gr. laga um kosningar til Alþingis, ef þær ákveða í framkvæmd sinni að víkja með einhverjum hætti frá einstökum fyrirmælum laga um kosningar til Alþingis.“

Þetta varðar kæruna sem snerist um það að í einhverjum tilvikum eða tilviki hefði barn farið með kjósanda í kjörklefa. Það var mat kjörbréfanefndar að það væri ekki tilefni fyrir nefndina að draga með nokkrum hætti í efa niðurstöður kosninganna þrátt fyrir álitamál sem þessu tengjast. Er því niðurstaða nefndarinnar að vísa þessu máli frá sér en bendir á þau atriði sem þarna koma fram sem beinast að því að í þessum efnum verði gætt samræmis í framkvæmd.

Um kosningar almennt er einnig fjallað í áliti kjörbréfanefndar og vitnaði í eldri álit kjörbréfanefnda þar sem fjallað er um endurskoðun á lögum um kosningar til Alþingis. Það er ljóst að sú vinna hefur átt sér stað og hefur staðið til að leggja fram frumvarp á Alþingi um breytingar á kosningalögum sem eru þá fyrst og fremst tæknilegs eðlis í ljósi reynslunnar af framkvæmd kosninga. Kjörbréfanefnd nefnir nokkur atriði, tæknileg útfærsluatriði sem væri ástæða til að taka tillit til við þá endurskoðun.

Að þessu sögðu er það tillaga kjörbréfanefndar að kjörbréf þeirra aðalmanna og varamanna sem kjörnir voru við kosningarnar í lok október verði samþykkt og er að finna í álitinu lista yfir aðalmenn og varamenn í hverju kjördæmi fyrir sig. Geta hv. þingmenn kynnt sér þann lista hér en ég mun ekki lesa hann við þetta tilefni.

Að svo mæltu geri ég það að tillögu minni fyrir hönd kjörbréfanefndar að kjörbréfin verði samþykkt.