148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

"Í skugga valdsins: #metoo".

[15:40]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Velferðarráðuneytið hefur undanfarin ár leitt vinnu við gerð aðgerðaáætlunar gegn ofbeldi í samfélaginu með fulltrúum dómsmálaráðherra, félags- og jafnréttismálaráðherra, heilbrigðisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra. Það verkefni byggir á öðru eldra verkefni sem heitir Vitundarvakning um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi. Þarna eigum við samstarfsvettvang og verkferla sem hægt er að nýta til að nálgast vinnuna sem nú þarf að fara af stað í framhaldi af samfélagsmiðlabyltingunni.

Núverandi félags- og jafnréttismálaráðherra hefur þegar ákveðið að skipa tvær nefndir á grunni þeirrar vinnu. Önnur hefur það hlutverk að meta umfang kynferðislegar áreitni, kynbundinnar áreitni eða ofbeldis auk eineltis á íslenskum vinnumarkaði sem og aðgerðir vinnuveitenda í tengslum við slík mál á vinnustöðum. Í rauninni að fylgja eftir reglugerðinni sem við höfum verið að ræða hér. Hins vegar hefur á samstarfsvettvangi aðgerðaáætlunar gegn ofbeldi í samfélaginu komið fram að þar hefur verið kallað eftir fjölbreyttari meðferðarúrræðum fyrir gerendur í ofbeldismálum. Í ljósi þess hefur verið ákveðið að skipa starfshóp sem m.a. verði falið að kortleggja og skilgreina þjónustuþörf fyrir gerendur í ofbeldismálum og þá sem eru í hættu á að fremja ofbeldisbrot.

Ég tel mjög mikilvægt að löggjafinn fylgist með framgangi þessara verkefna allra til þess að læra af þeim, bregðast við með breytingum á löggjöf ef þörf krefur, (Forseti hringir.) og til þess að innleiða nýja verkferla.