148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

störf þingsins.

[10:53]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Í september sl. var fjárlagafrumvarp þáverandi ríkisstjórnar lagt fram á Alþingi. Það frumvarp var kallað í þessum sal af fulltrúum Vinstri grænna ömurlegt frumvarp og merki um hægri sveltistefnu. Svo komu kosningar og allir flokkar lofuðu öllu fögru og lögðu sín áherslumál á borð kjósenda. Þá fengum við þetta frumvarp. Þetta er frumvarp Vinstri grænna. Og munurinn á þessu frumvarpi og frumvarpi síðustu ríkisstjórnar eru heil 2%. Ég velti fyrir mér til hvers hafi eiginlega verið barist, kæru Vinstri græn. Þetta er hægri sveltistefnan og þetta er nýja frumvarpið. Þið sjáið að það er aðeins bleikara, en þó 98% eins og frumvarpið sem hér var harkalega gagnrýnt af hálfu Vinstri grænna.

Fulltrúi Öryrkjabandalagsins sagði á fundi fjárlaganefndar í gær að nýja frumvarpið væri bókstaflega „copy/paste“ af fyrra frumvarpinu sem Vinstri græn áttu ekki orð yfir hvað væri hrikalegt. Við sjáum það í meðförum nefndarinnar að langflestir hagsmunaaðilar eru óánægðir með það fjárlagafrumvarp sem hér er til umræðu. Landspítalinn er óánægður, Sjúkrahúsið á Akureyri er óánægt, heilbrigðisstofnanir úti á landi lýsa gríðarlegri óánægju með frumvarpið, hjúkrunarheimilin eru óánægð, Landssamband eldri borgara er óánægt, Öryrkjabandalagið, ASÍ, Samband íslenskra sveitarfélaga, löggæslan o.s.frv.

Enn og aftur þarf ég að lýsa gríðarlegum vonbrigðum með þetta fjárlagafrumvarp. Það er í engu samræmi við það sem Vinstri græn og Framsóknarflokkur og fleiri flokkar lögðu á borð kjósenda og því ber sérstaklega að harma að svona sé farið með það vald, loksins þegar þessir flokkar komast inn í ríkisstjórn.