148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[17:44]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. og formanni fjárlaganefndar Willum Þór Þórssyni fyrir orð hans. Ég tek heils hugar undir það og lít þannig á að mikill samhugur sé í nefndinni undir forystu hans um að bæta verklag innan þess ramma sem lög um opinber fjármál setja. Það er náttúrlega mikið framfaraspor í allri umgjörð um fjárhagsbúskap ríkisins að fá þessi afar merkilegu og þörfu lög. Nú blasir við að við förum betur eftir þeim í einstökum atriðum en tekist hefur til þessa.

Kannski mætti spyrja: Því er borið við að líftími þessa ágæta félags, Lindarhvols, sé takmarkaður og muni enda í fyrirsjáanlegri framtíð, en það er væntanlega ekki klappað í stein frekar en önnur mannanna áform. Maður spyr sig hvort það hefði jafnvel verið betra að í stað þess að grípa til þess úrræðis að flytja í nokkurri skyndingu þessar eignir, svo áhættusamar og kostnaðarsamar sem þær sýnast vera, (Forseti hringir.) hefði verið betri bragur á því að grípa frekar til þess úrræðis að framlengja líftíma þessa félags og vanda þá meira til þeirra úrræða sem kynnu að vera fyrir hendi varðandi ráðstöfun þessara umræddu eigna.