148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[15:31]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það sem hv. þingmaður segir í lokin. Ef ríkið eða fjármálaráðuneytið eða ráðuneytin setja fram áætlun á það að vera markmið í sjálfu sér að halda sig við hana. Að sjálfsögðu þurfum við að vera samkvæm sjálfum okkur hvað það varðar. Þess vegna talaði ég talsvert um það í ræðu minni áðan að áætlanagerð væri slöpp og hefði verið það lengi. Þess vegna kallaði ég eftir frekari úrræðum. Ég vil efla fjármálaráðuneytið t.d. Ég var einu sinni efnahagsráðgjafi forsætisráðherra þannig að ég þekki vel til í ráðuneytunum. Ég vil efla ráðuneytin, auka fjölda sérfræðinga hjá þeim, því að það skiptir máli að þar sé gott fólk sem getur unnið vinnuna á þeim tíma sem verkin krefjast. Það sjáum við ekki. Við sjáum að ráðuneytin eru missterk. Í því samhengi hafði ég sérstaklega orð á því hvað þingið er illa í stakk búið þegar kemur að hagrænum greiningum. Eins og ég sagði er hægur leikur að laga þetta og það kostar í sjálfu sér ekkert svo mikið í tilviki þingsins. Við fáum betri áætlanagerð, betri ríkisfjármál, minni frávik, meiri fyrirsjáanleika og það hlýtur að vera hagur skattgreiðenda.

Ég tek undir annað sem hv. þingmaður gat um — og ég held að fjármálaráð sé sjálfstætt frá fjármálaráðuneytinu þótt ráðherra skipi suma í ráðið — að fjármálaráð segir að vöntun sé á betri greiningum og fjölbreyttari spálíkönum. Þeir spyrja sérstaklega í áliti sínu af hverju ekki eru settar upp mismunandi sviðsmyndir eins og lágspá, miðspá og háspá. Ég var í bankaráði Seðlabankans í fjögur ár og þá fengum við á vettvangi bankans alltaf háspá, miðspá og lágspá. Það var mikið gagn að því. Þetta er eitthvað sem ég tek heils hugar undir hjá fjármálaráðinu að þurfi að bæta í plaggi eins og fjármálastefnunni. Það verður fróðlegt að sjá hvort það muni rata í fjármálaáætlunina, sem verður auðvitað ítarlegri og reyndar annars eðlis en þetta, en hins vegar er hér tækifæri a.m.k. til að bregðast við einhverjum af þeim (Forseti hringir.) gagnrýnispunktum sem koma fram áður en fjármálaáætlunin kemur til okkar.