148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[17:20]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Þorsteinn Víglundsson mælir hér varnaðarorð og það er gott. Það ber ætíð að leggja eyrun við slíku. Ef ég skil hv. þingmann rétt hefur hann áhyggjur af því að hér sé verið að auka útgjöld mjög mikið, glannalega mikið, við nokkuð þandar aðstæður í hagkerfinu. En skiptir þá ekki máli, hv. þingmaður, að hlutdeild hins opinbera í vergri landsframleiðslu er þó ekki að vaxa? Fjármálaráðherra grípur gjarnan til þessa ráðs þegar sótt er að honum úr þessari átt.

Skiptir ekki máli í öðru lagi að útgjaldaaukningin er að verulegu leyti eyrnamerkt bráðnauðsynlegum innviðafjárfestingum sem undangengin þrengingarár hafa því miður þýtt að menn hafa orðið að svelta? Er ekki verulegur þjóðhagslegur arður í því fólginn að fara að borga inn á þennan reikning? Verður ekki að taka hér fleira með í reikninginn? Og verður ekki að hafa í huga þegar farið er með hefðbundna hagfræðiþulu um þetta ástand, þenslu versus samdrátt og hvernig eigi að beita ríkisfjármálunum, að Ísland er ekki í einhverjum jafnvægisaðstæðum að þessu leyti? Við eigum mikla skuld að gjalda við svelta fjárfestingu í innviðum sem við verðum einhvern tímann og einhvern veginn að fara að komast í færi til að borga inn á.

Skiptir þá ekki líka í þriðja lagi máli, ef hv. þingmaður vildi koma inn á það, að við erum væntanlega komin vel yfir hápunkt hagsveiflunnar og hófsamari eða hóflegri hagvöxtur fram undan? Margt af því sem mér finnst hv. þingmaður vera að segja hefði í raun og veru kannski átt betur við fyrir tveimur árum síðan þegar við sáum að við vorum að stefna upp á toppinn eins og síðar kom í ljós, t.d. hinn mikli vöxtur 2016 þar sem við komumst í kínverskar hæðir hvað hagvöxt varðar.

Er ekki í þessu ljósi ástæða til að ýta a.m.k. að einhverju leyti til hliðar hinni hefðbundnu analýsu sem gengur (Forseti hringir.) út frá hagkerfi í jafnvægi þar sem innviðunum hefur verið sinnt og ekki nein slík skuld ógreidd? Hefur hv. þingmaður kannski aðeins of miklar áhyggjur í þessu ljósi?