148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[17:26]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að byrja á endinum hjá hv. forseta og þingmanni, með skattkerfið. Ég er alveg sammála því að auðvitað er best að við séum með mjög stöðugt og tiltölulega tregbreytanlegt skattkerfi. Það verður fyrirsjáanlegra, hægt er að eyða meiri kröftum í að einfalda það og gera það gagnsærra og, enn og aftur, er það fyrirsjáanlegra fyrir bæði fyrirtæki og almenning. Þá er jafnvel hægt að fikra sig niður í skattstigi ef svigrúm skapast til.

En þetta er ákveðin stefnubreyting, finnst mér, í boðskap flokks hv. þingmanns og forseta þings og væri jákvætt ef við sæjum betri sátt skapast um tiltölulega lægra og stöðugra skattstig. (SJS: Ég hef ekkert …) — Ég þóttist nú vita það. En það er alveg rétt með þjóðhagslega ávinninginn, ég held að við þurfum líka að gera talsvert betur þegar kemur að mikilvægum samgönguáætlunum í að meta forgangsröðun slíkra verkefna, (Forseti hringir.) bæði út frá arðsemi þeirra, áhættumati og því hversu brýn þörf er fyrir viðkomandi verkefni. Mér finnst við sýna allt of lítil merki þess t.d. í mótun samgönguáætlunar að raunveruleg og skýr forgangsröðun sé á þeim verkefnum sem þar er verið að lista upp.