148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

sálfræðiþjónusta í opinberum háskólum.

112. mál
[18:16]
Horfa

Alex B. Stefánsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Þingsályktunartillaga þessi frá m.a. hv. þm. Jóni Steinari Valdimarssyni er mjög góð inn í þessa umræðu. Ég hef komið aðeins inn á það áður, en það var gerð viðamikil rannsókn 2011 innan háskólans með yfir 1.600 þátttakendum. Þá kom í ljós að meira en helmingurinn af þeim sótti sér ekki viðeigandi heilbrigðisþjónustu vegna kostnaðar. Í þessari umræðu sem við heyrum ítrekað á Íslandi þá viljum við hafa norrænt velferðarkerfi, alla vega velferðarkerfi að norrænni fyrirmynd. En við erum með íslenskt skattkerfi. Ef við ætlum að vera með kerfi sambærilegt þeim sem eru á Norðurlöndunum þurfum við að nýta peningana betur og við þurfum að eyða einni krónu til að spara 10 kr. Þessi tillaga, þessi umræða er einmitt í slíka átt.

Eitt langar mig að nefna við hv. þingmann. Ég var svo lánsamur að fá að vera norður á Akureyri hjá Grófinni, geðverndarmiðstöð á Akureyri, á opnum fundi á síðasta ári. Þar kom fram að þeir sem eru með andleg veikindi eða sjúkdóma, eins og hv. þingmaður talaði um, kjósa frekar að tala um geðrænar áskoranir. Ég vil hvetja hv. þingmann til að taka það til greina.