148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

löggæslumál.

[15:44]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hefja máls á málefnum lögreglunnar. Það gleður mig að heyra velvilja í garð lögreglunnar í þingsal. Lögreglan gegnir auðvitað lykilhlutverki í öryggis- og viðbragðskerfi samfélagsins. Það er mjög mikilvægt að þingheimur allur standi samhentur að baki lögreglunni á hverjum tíma.

Ég vil þó gera athugasemd við orðalag hv. þingmanns sem lýsir ástandinu í lögreglunni sem algjöru ófremdarástandi í ræðu sinni. Ég get nú ekki tekið undir það. Við erum að sjá afrakstur mikillar skipulagsbreytingar sem varð fyrir nokkrum árum á embættum og fyrirkomulagi lögregluembætta með fækkun þeirra og sameiningu. Þar með voru þau efld mjög til muna. Ekki voru margir jákvæðir í garð þeirra breytinga á sínum tíma. En árangurinn er þvílíkur að ekki heyrast nokkrar einustu neikvæðar raddir í dag vegna þessara skipulagsbreytinga heldur eru menn almennt mjög ánægðir með þær innan lögreglunnar. Hafa margir komið að máli við mig og nefnt jafnvel möguleika á frekari sameiningum, þótt þær séu ekki í bígerð á næstunni. Við sjáum núna afrakstur af þeirri skipulagsbreytingu.

Hvað þróun fjárheimilda varðar var gríðarlegur niðurskurður hjá lögreglunni eftir efnahagshrunið eins í og öðrum ríkisstofnunum. Orkaði það að vísu tvímælis að mínu mati, því að eins og ég hef nefnt gegnir lögreglan lykilhlutverki og er ein af grunnstoðum þjóðfélagsins. Það getur því verið vafasamt að skera niður þótt auðvitað þurfi að halda vel á spöðunum hvað fjárheimildir varðar.

Frá árinu 2014 hafa fjárframlög til lögreglunnar aukist um 34%, um 4 milljarða, eða um 2 milljarða að raungildi ef við lítum fram hjá verðlagsbreytingum og launahækkunum. Það eru rúmlega 2 milljarðar frá árinu 2014. Ég vil líka nefna að sú fjárhæð hefur farið í að fjölga lögreglumönnum. Það getur hins vegar verið óljóst þegar menn tala um nákvæmlega fjölda lögreglumanna, en fyrir liggur að 1. febrúar 2017 voru faglærðir og fastráðnir lögreglumenn 649 talsins og hafði þeim þá fjölgað um 29 frá 1. febrúar 2014. Það er mikilvægt að hafa í huga að sú tala segir kannski ekki alla söguna um þróun á fjölda lögreglumanna á tímabilinu vegna þess að héraðslögreglumönnum og afleysingamönnum fjölgaði talsvert á þeim tíma. Meðal afleysingamanna getur verið um að ræða faglærða menn. Raunfjölgun stöðugilda innan lögreglunnar er þannig meiri en þessar tölur gefa til kynna.

Ég vil líka nefna að nú er heimilt að ráða í sérstök störf landamæravarða, sem áður voru á hendi faglærðra lögreglumanna, þannig að landamæraverðir eru ekki lengur með í þessari tölu.

Mér hins vegar leikur hugur á að vita, og er að láta greina það, hvernig á því stendur að fjölgunin hafi ekki verið meiri en raun ber vitni miðað við þessa gríðarlegu aukningu fjárheimilda. Núna er unnið að heildstæðri greiningu á stöðugildum innan lögreglunnar og ástæðum þess að fjölgunin hefur ekki orðið meiri. Það getur verið að möguleg skýring á því sé sú að talsvert sé um langtímaveikindi hjá lögregluembættunum. Það ber að greiða þeim meðaltalslaun í veikindum auk þess sem mæta þarf kostnaði vegna afleysingar þess sem á í veikindum. Og eins og málshefjandi kom inn á hefur verið skortur á faglærðum lögreglumönnum vegna þess að Lögregluskóli ríkisins útskrifaði ekki nægilegan fjölda á sínum tíma til að mæta endurnýjunarþörf innan lögreglunnar.

Eins og málshefjandi nefndi hefur orðið breyting á menntun lögreglunnar, hún hefur verið færð upp á háskólastig. Nú er í gildi samningur menntamálaráðuneytisins við Háskólann á Akureyri um 40 nema á ári en ég gerði sérstakar ráðstafanir til þess að fjölga þeim á næsta ári þannig að þeir verða 49 og hef lýst yfir vilja mínum til að fjölga þeim enn frekar. Til samanburðar útskrifaði lögregluskólinn ekki nema um það bil 16 á ári síðustu árin sem hann starfaði. (Forseti hringir.)

Ég hlakka til að heyra sjónarmið þingmanna í þessum efnum.